Hjartasteinn

Hjartasteinn Hjartasteinn
Watch the video

Hjartasteinn

Saga um vináttu tveggja drengja sem alast upp í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Þegar annar þeirra verður hrifinn af stúlku uppgötvar hinn að hann ber ástarhug til vinar síns. Hjartasteinn er fyrsta kvikmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd og hefur hlotið fjölda verðlauna. Með aðalhlutverk fara Baldur Einarsson, Blær Hinriksson og Diljá Valsdóttir. Tökur fóru fram haustið 2015, að stærstum hluta á Borgarfirði eystra en líka á Seyðisfirði, Vopnafirði og í Dyrhólaey.

Hjartasteinn var frumsýnd 10 janúar 2017 á Íslandi og hefur verið aðgengileg á VOD í nokkurn tíma en nú var hún á dagskrá RÚV á jóladag og er aðgengileg á sarpinum: Hjartasteinn

 

Margverðlaunuð

Hjartasteinn hefur hlotið 45 alþjóðleg verðlaun, auk níu Edduverðlauna í febrúar á þessu ári. Hjartasteinn hlaut Edduverðlaunin 2017 fyrir bestu mynd, bestu leikstjórn (Guðmundur Arnar Guðmundsson), besta leikara í aðalhlutverki (Blær Hinriksson), bestu leikkonu í aukahlutverki (Nína Dögg Filippusdóttir), leikmynd (Hulda Helgadóttir), búninga (Helga Rós V. Hannam), handrit (Guðmundur Arnar Guðmundsson), klippingu (Anne Østerud og Janus Billeskov Jansen) og kvikmyndatöku (Sturla Brandth Grøvlen). Myndin var valin besta LGBT kvikmyndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Cape Town í Suður Afríku, vann áhorfendaverðlaun á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Ljubljana í Slóveníu, vann dómnefndarverðlaun á Chéries-Chéris kvikmyndahátíðinni í Frakklandi og var valin besta myndin á Cinedays – hátíð evrópskra kvikmynda í Skopje í Makedóníu. Auk þess vann hún áhorfendaverðlaun og dómnefndarverðlaun ungmenna á Du grain à démoudre kvikmyndahátíðinni í Frakklandi.

8. desember hlaut myndin svo EUFA verðlaunin sem eru á vegum Evrópsku Kvikmyndaakademíunnar, Kvikmyndahátíðarinnar í Hamborg og Kvikmyndaverðlauna Quebec Háskóla, í samstarfi við Evrópsku kvikmyndaverðlaunin.

 

 

Táraflóð og standandi lófaklapp á frumsýningu Hjartasteins

Visir.is fjallaði um frumsýninguna:

Það er óhætt að segja að bíógestir hafi verið hrifnir af myndinni en þegar henni var lokið stóð allur salurinn upp og klappaði lengi vel.

Leikarar og alls starfsfólk í kringum myndina hneigðu sig uppi á sviði eftir sýningu og fengu aðalleikarar myndarinnar, þeir Baldur Einarsson og Blær Hinriksson sem fara hreinlega á kostum í kvikmyndinni.

Fólk mætti í Vesturbæinn með bros á vör en undir lok Hjartasteins grétu bíógestir og mátti heyra tilfinningaþrunginn viðbrögð um allan sal.

Þar má einnig hlusta á skemmtilegt viðtal við aðalleikara kvikmyndarinnar sem tekið var í þættinum Í bítið í morgun. (byrjar á 13:30 mínútu): Táraflóð og standandi lófaklapp á frumsýningu Hjartasteins

 

„Stórkostlega gert á allan hátt“

Fjallað var um myndina í kvikmyndagagnrýni Menningarinnar í Kastljósi í janúar: Hjartasteinn: „Stórkostlega gert á allan hátt“

Hjartasteinn er feikilega áhrifarík kvikmynd um eldsumbrot unglingsáranna og borin uppi af ungum leikhópi sem vinnur stórsigur, að mati gagnrýnenda Menningarinnar.

Hjartasteinn, fyrsta kvikmynd leikstjórans Guðmundar Arna Guðmundssonar í fullri lengd, var frumsýnd í síðustu viku. Myndin gerist í litlu þorpi og segir frá vinunum Þór og Kristjáni og félögum þeirra, sem eru að komast á unglingsaldur.

Ótrúlegt að sjá unglinga halda uppi heilli mynd

„Þetta fjallar í raun og veru um þetta viðkvæma æviskeið þegar við erum að breytast úr í barni í fullorðinn einstakling, þegar þráin vaknar, kynhvötin vaknar, ástartilfinningar og ég tala nú ekki um kynhneigð, sem verður mjög stórt efni í myndinni, en líka vináttan,“ segir Hlín Agnarsdóttir.

„Allur unglingahópurinn er frábær, það sést greinilega hversu lengi þau hafa æft,“ segir Snæbjörn Brynjarsson um leikhópinn, þau Baldur Einarsson, Blæ Hinriksson, Diljá Valsdóttur, Kötlu Njálsdóttur, Jónínu Þórdísi Karlsdóttur og Rán Ragnarsdóttur. Hlín tekur undir og segir Guðmund Arnar greinilega hafa undirbúið þau vel. „Það hefur skilað sér fullkomlega því það er ótrúlegt að sjá þau halda uppi myndinni.“

Kunnugleg sviðsetning sem styður við frásögnina

Sviðsetning myndarinnar er kunnugleg, margir íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa á undanförnum árum gert myndir sem gerast í þorpi eða sveit og flétti náttúrunni inn í frásögnina. Hjartasteinn sé hins vegar gerð af óvenjumikilli fágun. 

„Maður verður alltaf pínu smeykur við þetta, þetta er orðin svolítil klisja, óhamingjusama þorpið og íslensk náttúra,“ segir Snæbjörn. „Ég persónulega vil frekar sjá íslenskar persónur – en við fáum það alveg.“

„Náttúran þarna og landslagið styður við allt sem er að vakna inn í brjóstum þessara ungmenna,“ bætir Hlín við. „Guðmundur Arnar speglar þetta líka í grimmd náttúrunnar; innvígslan í fullorðinsheiminn. Þetta er svo stórkostlega gert á allan hátt að maður trúir þessu varla.“ 

 

Hjartasteinn í hjartastað — ★★★★½

Það var einnig fjallað um hana í Popplandi Rásar 2: Hjartasteinn í hjartastað — ★★★★½

Hjartasteinn er kvikmynduð í ægifögru umhverfi sem leikur ekki síður stórt hlutverk í sögunni og margar senur eru svo fallegar að hrifningin hríslast um mann og kallar fram gæsahúð.

Hjartasteinn er kvikmynd sem hittir áhorfandann í hjartastað. Hún er falleg á margan hátt, ekki bara myndrænt heldur í boðskap sínum og framsetningu hans. Hún spilar á allan tilfinningaskalann, dregur fram tár, en veitir líka von. Leikur og leikstjórn eru í fremsta flokki sem og útlit og tæknilegir þættir. Heilt yfir afskaplega vel gerð mynd sem lifir með manni þegar út úr bíóinu er komið.

 

Kvikmyndir og sjónvarp

Fleiri greinar

Dramatísk þáttaröð frá HBO um fjölbreyttan hóp...

Tónlistarmyndbönd

Fleiri greinar

Drag

Fleiri greinar