Kaliforníufylki afglæpavæðir HIV

Kaliforníufylki afglæpavæðir HIV

Það er löngu tími til kominn að afglæpa- og óttavæða HIV. Hvers vegna þarf sérstaka smitsjúkdóma og refsilögjöf yfir HIV? Eigum við þá ekki að hafa lög sem refsa öllum sem hafa kyn- eða aðra smitsjúkdóma, berkla, lifrarbólgu og fleira sem eru lífshættulegir sjúkdómar. Refsilögjöf fyrir blóðbanka, alla sem eru með sjúkdóma en segja ekki frá vegna ótta og refsingar. Eigum við ekki að refsa þeim sem gefa blóð og segja ekki frá að þeir séu hommar, samkynhneigð er nú enn skilgreind sem sjúkdómur víða um heim.

Ég minni á að blóð er skimað í blóðbönkum um allan heim fyrir öllum þekktum smitsjúkdómum og það er hættulaust að hvað varðar HIV smit að þiggja blóð. HIV er alvarlegur sjúkdómur, en það eru til lyf sem halda sjúkdómnum algerlega niðri og einstaklingar á lyfjum eru alfarið ósmitandi.

Í Bandaríkjunum og víðar eru jafnframt lyf á markaðinum sem varna því að menn smitist af veirunni og eru þau lyf „Truvada“ vonandi rétt ókomin hingað til lands. Við skulum vona að áfram verði komið lögum yfir illmennin, hér sem annarstaðar, sem ætla sér vísvitandi að skaða aðra, hvort sem það er með að smita aðra af sjúkdómum eða með öðru ofbeldi. Þetta skref sem þeir tóku í Kaliforníu með breytingu á löggjöfinni er frábært. Góðar fréttir og mættu mörg ríki með fáránlega löggjöf yfir HIV taka þau sér til fyrirmyndar. Þakkað getum við öflugu samfélagi aðgerðarsinna og samkynhneigðra í San Francisco. Þetta er skref sem gleður mig mikið persónulega að því leiti að maður sér möguleika á að HIV smitaðir verði meðhöndlaðir eins og annað fólk, loksins.

Við skulum ekki gleyma hvers vegna HIV jákvæðir hafa búið við ótta, mismunun, fordóma og útskúfun í gegnum árin. Gæti það verið vegna hommanna, sprautufíklanna, innflytjendanna og vændisfólks? Þeir í USA voru líka fyrstir til að aflétta ferðahömlun HIV jákvæðra sem enn eru viðhafðar í mörgum löndum, takk ameríkanar í Trumplandi, þeir eru nú ekki alltaf svo vitlausir.

Ég hef fengið nokkur undarleg einkaskilaboð á nokkrum stöðum vegna færslu á Facebook um þessa frétt með yfirskriftinni „góðar fréttir“. Því miður er óttinn og misskilningurinn enn til staðar sem er dapurlegt. Ég minni þá sérstaklega á að nota smokkinn og hafa gaman af lífinu. Það er hæpin hugsun og sem betur fer afar sjaldgæft að geðveikt fólk sé á ferðinni og ætli sér vísvitandi að smita þig af sjúkdómum og það verður heldur aldrei túlkað sem góðar fréttir.

Hér er önnur grein um þessar lagabreytingar í Kaliforníu sem afglæpavæðir HIV og gefur skýrari mynd af málinu. Fyrri greinin sem var póstuð á dögunum var hægt að misskilja og fór fyrir brjóstið á sumum.

 

Einar Þór Jónsson - Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Ísland