Vonandi verður samkynhneigd.is skemmtilegur og fróðlegur vefur

Vonandi verður samkynhneigd.is skemmtilegur og fróðlegur vefur

Gayiceland.is tók viðtal við okkur sem stýrum þessum vef um hvernig þetta kom til og hvernig við sjáum vefinn þróast. Við fengum góðfúslegt leyfi til að birta það hér á íslensku líka.

Hvers konar vefur er samkyhneigd.is?

Vonandi skemmtilegur og fróðlegur. Honum er ætlað að vera vettvangur til að efla sjálfsmynd og samkennd samkynhneigðra með fréttum og fróðleik. Hommar og lesbíur eiga sína sögu og sína menningu og hafa háð sína réttindabaráttu og við erum stolt af því hver við erum. Við viljum bæði halda til haga þessari sögu með markvissum hætti og kynna hvað er að gerast í dag.

Okkur finnst hafa vantað vef sem segir frá því sem er að gerast hjá samkynhneigðu fólki og sem heldur utan um menningu og sögu þess hóps.

 

Innihaldið, verður það í formi frétta í bland við fróðleik?

Mest áberandi á forsíðu verða fréttir af því sem er í gangi, ábendingum um viðtöl og umfjallanir í öðrum miðlum og slíkt en við höfum líka safnað efni í nokkra flokka. Undir tónlist höfum við reynt að safna saman amk. einu myndbandi frá flestum þeim tónlistarmönnum sem eru “out and proud” hommar eða lesbíur. Eflaust vantar þó einhverja enda ekki allir listamenn með myndbönd á youtube svo það væri frábært að fá ábendingar um fleiri listamenn.

Annar flokkur eru bíómyndir og sjónvarp þar sem við bendum á þær bíómyndir og sjónvarpsþætti með samkynhneigðum sögupersónum eða aðra tengingu við homma og lesbíur og eru í sýningu eða aðgengilegar með öðrum hætti.

Drag senan á Íslandi hefur blómstrað síðustu tvö ár og fær hún sér flokk og kemur sér þá vel myndefni frá gayice.is sem er með eitt stærsta safn mynda og myndbanda frá viðburðum af senunni. Þar má nefna fyrstu sýningu Drag-Súgs og upptökur frá því þegar stjörnur RuPaul’s Drag Race stoppuðu á Íslandi.

Kynlíf og kynsjúkdómar eiga ekki að vera neitt felumál og fjöllum við um það í flokknum Heilsa.

Það hefur víða verið fjallað um sögu og menningu homma og lesbía í gegnum tíðina og við reynum að safna saman bæði pistlum, greinum og útvarpsþáttum. Sumt verðskuldar meiri athygli og dreifingu en það fékk á sínum tíma og við eigum eftir að bæta þarna við, jafnvel efni sem ekki hefur verið birt áður. Ábendingar eru vel þegnar.

Við tókum saman nokkrar spurningar sem snerta málefni samkynhneigðra og úr þeirri vinnu urðu til nokkrir pistlar undir heitinu Spurt og svarað. Við höfum fengið mest viðbrögð við þessum pistlum og nokkra gagnrýni á efnistök sem við fögnum og höfum brugðist við henni. Við höfum nú þegar endurskoðað sumt af því efni sem þar var birt og fjarlægt annað. Markmið okkar er að fjalla um málefni sam- og tvíkynhneigðra frá jákvæðu sjónarhorni og það ætlum við að reyna að gera.

 

Hvað varð til þess að þið ákváðuð að fara af stað með vefinn?

Við heyrum fólk oft kvarta yfir að ekkert sé að gerast á gay senunni og að það sakni þess að hafa vettvang til að hitta og kynnast öðru gay fólki en svo kemur í ljós að það veit ekki af ýmsu sem er í boði, hefur bara ekkert frétt af því. Þörfin fyrir að bjóða upp á þessar upplýsingar á einum stað skein því í gegn í hvert skipti sem maður talaði við homma og lesbíur um hvernig mætti bæta félagslífið. Það eru ýmsar grúppur á Facebook með mismunandi áherslum en engin sem er sérstaklega með fókusinn á málefni homma, lesbía og tvíkynhneigðra. Hommaspjallið á Facebook hefur þó verið vinalegur og líflegur vettvangur undanfarið en það eru ekki allir á Facebook. Þetta er viðleitni til að ná til stærri hóps og kynna viðburði betur.

Vefurinn Gayice.is hefur í 14 ár kynnt viðburði, skemmtistaði og bleika hagkerfið á ensku og aðallega beinst að túristum. Gayiceland hefur síðan verið að gera virkilega góða hluti undanfarin ár með umfjöllunum og fréttaflutning en það er líka allt á ensku. Þó flestir íslendingar geti lesið ensku þá eru ekki allir sleipir í enskunni eða finnst erfitt að lesa ensku og skilja með sama hætti og móðurmálið. Það er því hætta á að tilkynningar á ensku í tilkynningaflóðinu sem streymir á Facebook fari fram hjá mörgum.

Það er líka stór fjöldi homma og lesbía sem ekki tilheyra vinahópum með öðrum hommum eða lesbíum en vilja tengjast þessu samfélagi, eignast vini í sömu sporum og efla þennan hluta sjálfsmyndar sinnar og vonandi hjálpar þessi vefur þeim að finna eitthvað til að tengja við.

 

Þið hafið allir verið viðloðandi réttindabaráttu samkynhneigðra með einum eða öðrum hætti. Þannig að þið eruð engir nýgræðingar í þessum málaflokki eða hvað?

Við höfum allir tekið þátt í einhverju starfi fyrir samkynhneigða. Frosti og Matthías hafa báðir gegnt formannsstöðu í Samtökunum ‘78 og Páll hefur rekið vef Samtakanna ‘78 um árabil og þessi störf hafa öll verið unnin í sjálfboðavinnu. Einnig hafa Frosti og Palli verið í forsvari fyrir Bears on Ice hátíðina frá því að hún byrjaði árið 2005 auk þess að skipuleggja fjölmarga viðburði undir merkjum Gayice.is svo sem og FAB partýin.

 

Fer verkaskiptingin á vefsíðunni svolítið út frá fyrri reynslu? (Sérð þú t.d. um fróðleik Matthías, þú um almenn skrif Frosti og þú um vefinn Páll?)

Verkaskipting okkar er ekki endilega mótuð. Við komum hver um sig að ýmsum þáttum. Páll sér þó um tæknimálin enda hefur hann langa reynslu af því að setja upp og reka vefi fyrir ýmis félagasamtök og fyrirtæki. Það var því kjörið að hann myndi setja upp vefinn, skipuleggja innihaldið og vinna útlitið. Einnig tók Páll að sér að útvega og setja inn megnið af því efni sem þarna er í samvinnu við nokkra góða aðila. Við fengum alltaf jákvæð viðbrögð þegar við kynntum hugmyndina um vefinn og óskuðum eftir að fá að nota efni. Það kom líka á óvart hvað mikið var í gangi þegar að var gáð og vefurinn sem nú er kominn í loftið er mikið stærri og fjölbreyttari en okkur dreymdi um þegar við lögðum af stað með þetta verkefni.

 

Nú eruð þið þrír karlar, stendur til að fá konur í ritstjórnina?

Já við erum algjörlega opnir fyrir því. Það var bara svo mikill kraftur í okkur eftir að við byrjuðum að það gafst ekki tími til að vinna í því. En við höfum líka nokkra góða bakhjarla bæði homma og lesbíur sem hafa sent okkur ábendingar og efni þannig að þó við séum þrír skrifaðir fyrir þessu þá er hópurinn sem hefur áhrif á innihaldið stærri og við höfum gott tengslanet.

 

Vefurinn fór í loftið í síðustu viku, hvernig hafa viðtökurnar verið?

Við höfum fengið mikil viðbrögð og margar góðar ábendingar um það sem betur mætti færa eins og fyrr segir. Við lentum í kerfishruninu hjá 1984.is þar sem vefurinn er hýstur. Þrátt fyrir þessa byrjunarerfiðleika hefur umfjöllun almennt verið afar jákvæð og viðbrögðin hafa til dæmis verið á þessa leið; “frábært framtak”, “löngu tímabært framtak”, “ánægður með ykkur”, “kærar þakkir, þið komið hlutunum í verk”.

Vefurinn er auðvitað glænýr og á eftir að þróast, ekki síst með hliðsjón af viðbrögðum lesenda. Við vonum að vefurinn verði góð viðbót við annað sem er í gangi.

Friðrika Benónýsdóttir

Upprunaleg grein á Gayiceland.is: HOPEFULLY OUR WEBSITE IS ENTERTAINING AND EDUCATING

Friðrika Benónýsdóttir

Friðrika Benónýsdóttir - Gayiceland.is

Nýlegar greinar