PrEP komið til Íslands

PrEP komið til Íslands
PrEP komið til Íslands

Nýlega samþykkti lyfjagreiðslunefnd notkun PrEP á Íslandi en það er liður í því að gera lyfið aðgengilegt í forvarnarskyni fyrir karlmenn í áhættuhópi, einkum homma. Nokkur hópur er nú þegar að nýta sér lyfið en samþykki lyfjagreiðslunefndar þýðir að nú er hægt að innleiða með markvissari hætti notkun lyfsins og sinna eftirfylgni með þeim sem það taka.

Verkefnið, sem hefur átt sér nokkurn aðdraganda og verið í undirbúningi um nokkurt skeið, er leitt af starfsfólki Landsspítalans og samanstendur af teymi tveggja hjúkrunarfræðinga og tveggja smitsjúkdómalækna. Að sögn Önnu Tómasdóttur hjúkrunarfræðings sem er ein þeirra sem kemur að þessu verkefni, hefur  nokkrum einstaklingum þegar verið boðið í áhættumat og fengið PrEP ávísað en til stendur að taka fleiri inn í slíkt mat að loknum sumarleyfum í byrjun ágúst.

Anna Tómasdóttir hjúkrunarfræðingur
Anna Tómasdóttir hjúkrunarfræðingur

Þetta eru góð tíðindi fyrir sam- og tvíkynhneigða karlmenn. HIV Ísland hefur lagt á það ríka áherslu að PrEP verði aðgengilegt hér á landi með sambærilegum hætti og víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Þó verkefnið sé ekki komið formlega af stað þá er þegar byrjað að ávísa PrEP á göngudeild smitsjúkdóma á Landspítalanum. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér málið og komast í áhættumat hjá hjúkrunarfræðing og lækni geta haft samband við hjúkrunarfræðing á göngudeild smitsjúkdóma í síma 543-6040.

Reglubundinn (dagleg) notkun Truvada dregur úr líkunum á HIV smiti um ríflega 90%. Því er ætlað að vera viðbót við þær varnir sem smokkurinn veitir gagnvart HIV smiti auk smiti annarra kynsjúkdóma eins og lekanda og sýfilis. Öruggt kynlíf með smokk er því alltaf langbesta vörnin.

 

Nýlegar greinar