Sér eftir að hafa ekki komið fyrr út úr skápnum

Sigsteinn Sigurbergsson - Mynd: DV
Sér eftir að hafa ekki komið fyrr út úr skápnum

Sigsteinn Sigurbergsson hefur verið hluti af leikhópnum Lottu frá upphafi en leikhópurinn skemmtir nú börnum um allt land tólfta sumarið í röð. Steini hitti Björn Þorfinnsson blaðamann á DV og ræddi um Lottu og persónuleg mál eins og slæma reynslu hans af skólakerfinu, skápinn sem hann dvaldi allt of lengi inn í og glímu föður síns við Alzheimer sjúkdóminn skelfilega.

„Við viljum hafa áhrif og miðla einhverjum boðskap. Sýningin um Gosa fjallar um ýmsar áleitnar spurningar varðandi fjölskylduna, í fyrra fjallaði sýningin um einelti og árið þar áður fjölluðum við um innflytjendur og flóttamenn. Við dönsum stundum á línunni og stundum förum við aðeins yfir hana. Við erum óhrædd við að fjalla til dæmis um eðlilega hluti eins og fæðingar. Í einu verkinu okkar fæðist einn karakterinn á sviðinu og því bjuggum við til risastóra píku sem einn leikarinn skreið út um. Við heyrðum af einhverjum sem fannst það ógeðslegt og jafnvel klúrt en við erum hjartanlega ósammála. Við verðum að ræða þessa hluti á opinskáan hátt, sérstaklega við börnin okkar,“ segir Steini.

 

Faðirinn var einn af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar um árabil

„Ég held að allir hafi búist við því að ég yrði öflugur íþróttamaður. Þegar pabbi tók mig í fangið á fæðingardeildinni þá hélt hann eflaust að hann héldi á einhverjum Eiði Smára. Hann grunaði líklega ekki að hann héldi á feitum og samkynhneigðum leikara,“ segir Steini og hlær dátt. Hann prófaði fjölmargar íþróttagreinar en hélst ekki lengi í þeim. „Ég var líklega lengst í blaki af þessum greinum en ég sé eiginlega mest eftir því að hafa ekki prófað handbolta. Ég er viss um að ég hefði verið ágætur á þeim vettvangi en enginn vinur minn æfði handbolta og því fór ég í aðrar áttir,“ segir Steini.

 

Leið illa í skóla

„Á þeim árum voru ekki allar þessar greiningar komnar. Í dag er ég greindur með athyglisbrest, kvíða, ofvirkni, les- og skrifblindu svo eitthvað sé nefnt. Ég átti því mjög erfitt með að fylgjast með í tímum og lenti í sífelldum árekstrum við ósveigjanlegt skólakerfið. Til dæmis reyndi ég stundum að beisla hugann með því að teikna á blað á meðan ég reyndi að hlusta á kennarann en þá var það yfirleitt rifið af mér á þeim forsendum að ég væri augljóslega ekki að fylgjast með“.

 

„Það er ekkert sérstaklega góð upplifun fyrir ungan dreng að vera sannfærður um að hann væri fáviti. Það braust síðan út þannig að ég var algjör villingur á þessum árum. Ég lét eiginlega öllum illum látum og skammast mín fyrir margt. Mér leið ekki vel á þessum árum“.

 

„Ég þótti kvenlegur og var með ýmsa takta sem gert var grín að. Ég var alltaf uppnefndur Steini píka og það særði mig mjög þó ég hafi reynt að bera mig vel. Orðið hommi var eitt helsta uppnefnið og ég var ekki einu sinni sjálfur farinn að horfast í augu við eigin kynhneigð á þessum tíma.“

 

Þéttur hópur vina stóð þó bakvið Steina og gerði lífið bærilegt í skólanum. „Ég átti og á ofboðslega góða og trausta vini. Þeir stóðu með mér á þessum árum sem var ómetanlegt. Ég hef síðan hitt gerendurna í gegnum árin og sumir kalla mig enn Steina píku, þá helst ef ég rekst á viðkomandi útá lífinu. Ég vil ekki festast í reiði og neikvæðum tilfinningum og því hef ég fyrirgefið öllu þessu fólki. Það eru kannski tveir sem ég myndi alveg heilsa á förnum vegi en ég mun samt ekkert mæta í jarðafarirnar þeirra,“ segir Steini brosandi.

 

Sér eftir að hafa ekki komið fyrr út úr skápnum

Eins og áður segir er Steini samkynhneigður og það reyndist honum erfitt að koma út úr skápnum. „Eftir alla þessa stríðni þurfti ég eiginlega að yfirgefa Garðabæ til þess sem ég og gerði. Ég var líka lengi að horfast í augu við þetta sjálfur og átti kærustur þegar ég var yngri. Það tók mjög langan tíma fyrir mig að telja í mig kjark að ræða þetta við foreldra mína. Ég tók loks það samtal þegar ég var 24 ára gamall og skalf af stressi. Síðan var þetta ekkert mál. Þau tóku því afar vel og sýndu mér fullan stuðning. Ég dauðsá strax eftir því að hafa ekki gert þetta miklu fyrr,“ segir Steini.

 

Lesið allt viðtalið á DV.is: Steini í Lottu: Pabbi hélt að hann héldi á Eiði Smára á fæðingardeildinni en þess í stað fékk hann feitan samkynhneigðan leikara

 

 

Nýlegar greinar