Bjóða íslendingum upp á milligöngu um staðgöngumæðrun

Mikkel Raahede, forsvarsmaður Tammuz er á leið aftur til Reykjavíkur.
Bjóða íslendingum upp á milligöngu um staðgöngumæðrun

Það vakti athygli margra þegar Stöð 2 sagði frá því 11. ágúst að Ísraelska staðgöngumæðrunarfyrirtækið Tammuz Nordic ætlaði að bjóða íslendingum upp á milligöngu um staðgöngumæðrun núna í haust en innan Íslands er hún ólögleg. Þjónustan er í boði fyrir karlmenn eða pör þar sem amk. annar er karl en lagaumhverfið hér er ekki jafn hagstætt konum.  Forsvarsmaður fyrirtækisins fullyrðir að þjónustan stangist ekki á við íslenska löggjöf. 

Fyrirtækið verður með kynningarfund 6. október, samkvæmt eftirfarandi fréttatilkynningu:

 

Tammuz er á leið aftur til Reykjavíkur.

Tammuz boðar til kynningarfundar 6. október næstkomandi kl. 13 - 15.  Allir áhugasamir eru boðnir velkomnir. Fundarstaður verður gefinn upp við skráningu. Rétt er að taka fram að frítt er á kynningarfundinn og engin skuldbinding felst í þátttöku fundarins.

Mikkel  Raahede, fulltrúi Tammuz í Danmörku og á Íslandi, mun kynna þá þjónustu sem Tammuz býður upp á. Sérstök áhersla verður annars vegar á staðgöngumæðrun og hins vegar á eggjagjöf (egg donation) sem er ný þjónusta hjá Tammuz.

Við kynnum með stolti byltingarkennda þjónustuleið þar sem Tammuz ábyrgist frjóvgun eggs, þ.e. endurgreitt er ef ekki tekst að ná fram þungun. Þessi leið hentar þeim sem hyggjast sjálfir ganga með barn en þurfa aðstoð við frjóvgun eggs.

Tammuz kappkostar að halda öllum kostnaði niðri hjá þeim sem velja staðgöngumæðrun. Á sama tíma er gætt fyllsta öryggis staðgöngumóður, egg-gjafa (egg donor) og væntanlegra foreldra. Við störfum aðeins með færustu læknum, læknastofum, lögfræðingum og tryggingaráðgjöfum.

Áætlað er að kynningarfundurinn taki um tvær klukkustundir, en þátttakendum er velkomið að hinkra eftir fundinn og ræða við aðra væntanlega foreldra eða fulltrúa Tammuz. Einnig er hægt að bóka einstaklingsfund með Mikkel fyrir eða eftir kynningarfundinn. Skráning fer fram á eftirfarandi vefslóð: https://tammuz-nordic-seminar-at-reykjavik.confetti.events/

Við hlökkum til þess að sjá ykkur!

 

Viðtal á Stöð 2

 

Í viðtali við Stöð 2 sagði Mikkel Raahede, forsvarsmaður fyrirtækisins, það ekki ólöglegt fyrir Íslendinga að leita erlendis eftir þjónustunni.

„Það að finna staðgöngumóður á Íslandi og undirgangast ferlið á Íslandi væri ólöglegt. En það er í raun löglegt fyrir íslenska ríkisborgara að fara til annarra landa þar sem þetta er heimilt, undirgangast staðgönguferlið þar og koma síðan heim með börn sín,” segir hann.

Aðspurður afhverju Ísland varð fyrir valinu segir hann beiðnir hafa borist héðan um milligöngu og að hann trúi því að staðgöngumæðrun eigi að vera raunhæfur valkostur sem fólk á að vita um. Staðgöngumæðrun hefur lengi verið umdeild hér á landi en árið 2015 var lagt fyrir alþingi frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í frumvarpinu var gengið út frá því að milliganga sem þessi væri óheimil. Frumvarpið var aldrei samþykkt á Alþingi. Mikkeler bendir á að það er vandað til verka hjá þeim og mjög ströngum reglum sé fylgt.

„Staðgönguferlið yrði að fara fram í Bandaríkjunum, Úkraínu eða í Albaníu. Það er löglegt í fleiri löndum en við viljum ekki vinna þar af því að siðareglur um málefnið eru vafasamar. Þannig vinnum við ekki. Við erum mjög nákvæm þegar við veljum konurnar. Við förum eftir fjölda viðmiðana við valið og vinnum úr stórum hópi kvenna áður en þær eru valdar inn því það er afar mikilvægt að við finnum alveg réttu konurnar,” bendir hann á.

Aðspurður hvort hann telji fyrirtækið vera að fara framhjá íslenskri löggjöf telur hann svo ekki vera.

„Ég tel okkur ekki fara í kringum reglurnar því það er yfir 30 ára reynsla á staðgöngumæðrun í Bandaríkjunum. Þessi aðferð við að skapa fjölskyldu er réttmæt. Ég tel ósanngjarnt að fólk sé svift þessum möguleika bara af því að það hefur ólíka kynhneigð eða ef kona fæðist án legs. Þetta fólk getur samt orðið foreldrar. Fjöldi fólks getur hjálpað því að gerast foreldrar og ég tel að við eigum að gera því kleift að gera það.”