Fyrirmyndir eru nauðsynlegar

Ingileif Friðriksdóttir
Fyrirmyndir eru nauðsynlegar

Ingileif Friðriksdóttir var mánudagsgestur vikunnar hjá RÚVnúll og ræddi meðal annars söngdrauminn, hinseginleikann og kosti og galla þess að hafa mikið að gera.

 

Box sem þú passar ekki í

Ingileif segist hafa verið með ákveðna fordóma gagnvart sjálfri sér á menntaskólaárunum og í mikilli afneitun gagnvart hlutum sem hún hefði kannski átt að átta sig á fyrr. Hún segist í undirmeðvitundinni hafa verið farin að fá einhverjar vísbendingar en fannst þetta allt hálf neyðarlegt og þorði ekki að minnast á það við neinn. Kúltúrinn í menntaskólanum setti hana í eitthvað box sem hún fann sig ekki í.

Sumarið eftir að hún útskrifaðist úr menntaskóla opnaðist heimurinn. Hún kynntist Maríu, sem er í dag konan hennar. „Þá upplifði ég þetta aha-móment, það eins og kviknaði á ljósaperu á hausnum á mér. Þarna kom mómentið; þú ert búin að vera í svo mikilli lygi öll þessi ár en nú meikar þetta allt sens, nú meika allar þessar tilfinningar sem vinkonurnar hafa verið að tala um sens. Og þetta var mjög magnað moment. Og líka að upplifa að þetta er allt í lagi. Þú ert ekkert öðruvísi, þú ert ekki að setja þig í eitthvað box sem þýðir að þú sért ekki eins og aðrir. Þetta var búinn að vera svo svakalegur ótti hjá mér.“

„Þegar ég var tilbúin til að horfast í augu við þetta sjálf meikaði þetta fullkomin sens fyrir mér.

 

Fyrirmyndir eru nauðsynlegar

Ingileif kom út úr skápnum tvítug og segir að það hafi í raun ekki komið neinum á óvart. Þegar hún og María, sem kom líka frekar seint út úr skápnum, hugsa til baka til þess hvað það var sem hindraði þær í að koma fyrr út og horfast í augu við sjálfar sig hafa þær komist að þeirri niðurstöðu að fyrirmyndir skipta ótrúlegu máli. Séu engar fyrirmyndir til staðar sem maður getur samsamað sig með getur verið erfitt að sjá sig fyrir sér í ákveðnu hlutverki, hvort sem það er að vera lesbía eða vélaverkfræðingur.

„Það er svo ótrúlega sterk staðalímynd bæði þegar kemur að hommum og lesbíum, það er bara ákveðin týpa sem þú þarft bara að vera ef þú ætlar að koma út úr skápnum. Allar bíómyndir sem sem sýna lesbíur sýna þessa butch týpu og ég sá mig ekki vera þessa týpu. Þegar ég fattaði að ég þyrfti ekkert að aðlaga mig að einhverri týpu, ég gæti alveg verið skotin í stelpum þó svo ég liti ekki út á ákveðinn hátt eða hagaði mér ekki á ákveðinn hátt eða hefði ekki einhver ákveðin áhugamál þá frelsaðist ég undan þeirri hugsun.“

Þessar pælingar urðu svo til þess að Ingileif og María stofnuðu snapchatrásina Hinseginleikinn þar sem að fólk sýndi frá sínu daglega lífi. Það þróaðist svo seinna meir út í vefþáttaseríuna Hinseginleikann sem að Ingileif gerði á RÚVnúll.

 

Frá búðkaupsdeginum
Frá brúðkaupsdeginum - Instagram

Ekki lengur feimin við að vera lesbía

„Nú erum við giftar og ég er ekkert feimin við það í dag að vera lesbía og finnst það ekkert jafn ótrúlega íþyngjandi og mér fannst það á þeim tímapunkti. Mér fannst  þetta líka svo scary tilhugsun. Ég veit ekki af hverju, þetta þvældist bara rosalega fyrir mér.

Ingileif Friðriksdóttir gaf á dögunum út sitt annað lag, Gerir eitthvað sem má horfa á hér.

 Viðtalið við RÚVnúll má hlusta á hér: Draumur sem hún bar lengi ein með sjálfri sér

 

Nýlegar greinar