Hinsegin Austurland stofnað

Hinsegin Austurland stofnað

Það er allt að gerast á Egilsstöðum í dag. Stofnfundur Hinsegin Austurlands kl. 15. Dragkeppni og Haffi Haff kl. 20 og Alvöru Pallaball frá kl. 23

Hinsegin Austurland stofnað

Í frétt á RÚV er fjallað um stofnfundinn:

Félagið á að fræða og svara spurningum ekki síst frá ungu fólki sem er að uppgötva kynhneigð sína eða fellur ekki inn í hefðbundin kyn eða kynhlutverk. Hún segir að ungt hinsegin fólk þurfi aðstoð og félagsskap. „Ég á sjálf þá reynslu að uppgötva mína kynhneigð mjög ung og vera búsett hér, hafandi engar fyrirmyndir og í rauninni engan stað að leita á og þessu viljum við breyta. Samfélagið er auðvitað gjörbreytt frá því sem áður var, miklu opnara og viðurkenning á því að við séum ekki öll nákvæmlega eins og steypt í sama mót er auðvitað miklu meira til staðar í dag en það var. En það breytir því ekki að þetta er oft hálf einmanalegt ferli. Við þurfum að fara í gegnum mikla sjálfsrannsókn og þá er bara svo mikilvægt að hafa þennan stað að leita á,“ segir Jódís.

 

Hátíð með dragkeppni og balli

Hún segir að draumurinn sé að opna skrifstofu en þangað til muni Hinsegin Austurland halda fundi reglulega um allan fjórðunginn. Stofnfundurinn verður í Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan þrjú á morgun, laugardag. Klukkan 20 um kvöldið verður dragkeppni í boði Hinsegin félags Menntaskólans á Egilsstöðum og klukkan 23 hefst Pallaball. „Félagið hinsegin Austurland er ekki bara fyrir hinsegin fólk heldur alla vini ættingja og bara velunnara. Okkar vandi í dag er ekki endilega að mæta miklum fordómum heldur er það ákveðin jaðarsetning og að vera svolítið ósýnileg. Þannig að nú óskum við eftir því að fólk sýni stuðning í verki og mæti og leggi okkur lið,“ segir Jódís.

 

 

Mannauður í öllum regnbogans litum

Jódís Skúladóttir, lögfræðingur, skrifaði grein sem birtist á austurfrett.is sem vakti töluverða athygli. Það skrifaði hún meðal annars:

Það hefur í áranna rás verið staða hinsegin fólks á landsbyggðinni að gefast upp og flýja til höfuðborgarinnar. Þetta er ekkert séríslenskt fyrirbæri, svona er þetta alls staðar í heiminum. Fordómar þrífast best í fámenninu. Það er ekkert óeðlilegt við þetta, sækjast sér um líkir og hin djúpa þörf manneskjunnar til að tilheyra rekur okkur áfram. Þegar ég kom kom úr hinum svo kallaða skáp um 1995 þekkti ég ekki nokkra hinsegin manneskju. Það voru engar fyrirmyndir hér fyrir austan og þörf mín eftir samþykki og viðurkenningu rak mig eins og flest annað hinsegin fólk í borgina þar sem mér fannst ég eiga athvarf.

Á Austurlandi búa rúmlega tíu þúsund einstaklingar. Oft hefur verið miðað við að 10% mannkyns sé hinsegin og því má vera ljóst að við erum stór partur af samfélaginu. Við höfum valið okkar dásamlega Austurland, hér viljum við búa. Við erum alls staðar og við erum alls konar. Við erum á öllum aldri, af öllum kynjum, kynþáttum og stéttum samfélagsins, fötluð og ófötluð. Við erum mannauður sem skiptir Austurland miklu máli. Við erum dýrmæt.

Þó að internetið hafi breytt miklu er það samt raunveruleiki hinsegin fólks að það á sér ekki athvarf hér á Austurlandi og úr því viljum við bæta.

Við erum hópur hinsegin fólks sem stefnir að stofnun félags, Hinsegin Austurland, um miðjan janúar. Hugmyndin er að geta boðið öllu hinsegin fólki á Austurlandi athvarf og skjól. Við viljum geta boðið upp á fræðslu, ráðgjöf og viðburði sem lúta að hinsegin málefnum.  Við viljum vera sýnileg og til staðar fyrir unga sem aldna sem telja sig þurfa á okkur að halda.

Greinina má lesa hér undir yfirskriftinni Hinsegin Austurland.

 

Viljum fá allt samfélagið með

Gunnar Gunnarsson skrifað meira um stofnfundinn á Austurfrétt.is:

Stofnfundur Hinsegin Austurlands, félags hinsegin fólks á Austurlandi, fjölskyldna og velunnara, verður haldinn á morgun, laugardag. Hvatinn að stofnuninni er að styðja við hinsegin fólk á svæðinu og gera það sýnilegra í austfirsku samfélagi.

„Ferlið þegar þú ert að uppgötva eigin kynhneigð og kynvitund er einmanalegt og fólk þarf þar stuðning og ráðgjöf.

Það er ekki það sama að veita hana persónulega, eða í gegnum netið eða síma. Yngri einstaklingar hafa ekki endilega tækifæri til að nýta þá aðstoð sem býðst í Reykjavík eða á Akureyri.

Við viljum líka vera sýnilegri og taka þátt í samfélaginu. Þetta eru helstu ástæðurnar fyrir að við viljum hafa hinsegin félag á Austurlandi,“ segir Jódís Skúladóttir, ein þeirra sem hafa haft veg og vanda að undirbúningi félagsins.

Jódís kynnti hugmyndina um félagið fyrst í grein sem birtist hér á Austurfrétt í nóvember. Hún segir viðtökur við greininni hafa verið frábærar og eins hafi allir sem leitað hafi verið til í aðdraganda stofnunarinnar, jafnt fyrirtæki og stofnanir, verið félaginu jákvætt.

Þá hafi fjölmargir einstaklingar sett sig í samband við undirbúningshópinn. „Það hefur komið fólk að máli við okkur sem vill fá að leggja málefninu lið með að vera með, bæði hinsegin fólk og einstaklingar sem vilja sjá betra samfélag. Við höfum ekki mætt neinu öðru en jákvæðni og bjartsýni.“

Jódís segir þetta allt í takt við þá stefnu sem undirbúningshópurinn hafi markað. „Þetta er í takt við það sem við viljum. Við viljum fá allt samfélagið með. Þetta er ekki lokað félag okkar sem eru hinsegin, félagið, viðburðir á þess vegum og fræðsla er öllum opið.

Hver og einn hinsegin einstaklingur er hluti af fjölskyldu, vinnustað, félagslegum tengslum og öðru í samfélagi. Þess vegna viljum við hafa alla með,“ segir Jódís.

Stofnfundurinn verður í Valaskjálf á Egilsstöðum og hefst klukkan 15:00 á morgun. Þar tala meðal annars fulltrúar frá Samtökunum 78, og frá bæði intersex-- og transfólki. Síðar um kvöldið verður dragkeppni þar sem Haffi Haff og Páll Óskar verða meðal dómara en Páll Óskar spilar síðan á balli þar í kjölfarið.

 

--

Mannlegi þátturinn sem Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson hafa umsjón með á RÚV hringdi í Jódísi í þættinum 21. nóvember og fékk hana til að segja frekar frá. Hér má hlusta á þáttinn og viðtalið hefst á mínútu 41:25 hér: Mannlegi þátturinn

Gayiceland.is talaði einnig við Jódísi og má lesa það viðtal hér: New LGBT+ organization: ”We’ll be there for anyone who needs us”

 

Þórhallur Jóhannsson hefur einnig verið að kynna félagið á Instagram reikning Hinseginleikans og sést hér með Jódísi Skúla. Mynd tekin af Facebook síðu Hinseginfélags ME 2019-2020 sem stendur að Dragkeppninni.

 

Nýlegar greinar