Hvað er kynsjúkdómur?
Kynsjúkdómar smitast í kynlífi og stafa af örverum, eins og bakteríum og veirum, eða lúsum. Sumir kynsjúkdómar smitast eingöngu við kynmök, þegar typpi snertir leggöng eða endaþarm. Aðrir smitast líka við munnmök, þegar munnur snertir kynfæri eða endaþarm.
Kynsjúkdóma sem smitast með bakteríum eða lúsum er oftast hægt að lækna með lyfjum. Aftur á móti eru kynsjúkdómar sem smitast með veirum oftast ólæknandi og einungis hægt að draga úr einkennum og hindra framgang þeirra tímabundið.
Hvaða kynsjúkdómar eru til?
Til eru yfir 30 kynsjúkdómar en þeir algengustu á Íslandi eru kynfæravörtur, kynfæraáblástur og klamydía. Aðrir kynsjúkdómar, sem eru ekki eins útbreiddir, eru t.d. HIV, lifrarbólga B, lekandi, sárasótt, tríkómónas-sýking, flatlús og kláðamaur.
Eru kynsjúkdómar hættulegir?
HIV/alnæmi, sárasótt og lifrarbólga B geta verið alvarlegir og lífshættulegir sjúkdómar. HIV/alnæmi er alltaf ólæknandi en sárasótt er hægt að lækna með sýklalyfjum. Lifrarbólga B gengur oftast yfir án meðferðar en í vissum tilfellum þarf að meðhöndla sjúkdóminn. Klamydía er einnig alvarlegur kynsjúkdómur þar sem hún leiðir stundum til ófrjósemi og er reyndar ein algengasta ástæða ófrjósemi ungra kvenna. Lekandi getur líka valdið ófrjósemi, en auk þess getur bakterían dreift sér víða um líkamann.
Kynfæravörtur og kynfæraáblástur geta við vissar aðstæður verið hættulegir sjúkdómar. Sýnt hefur verið fram á að kynfæravörtum tengist aukin hætta á leghálskrabbameini. Kynfæraáblástur er stundum mjög svæsinn sjúkdómur, sérstaklega í upphafi. Báðir þessir sjúkdómar valda oft töluverðum óþægindum þegar þeir blossa upp og oft er erfitt að meðhöndla þá. Tríkómónas- sýking, flatlús og kláðamaur eru einnig óþægilegir kynsjúkdómar en valda ekki líkamstjóni.
Vissir þú?
- Sumir kynsjúkdómar fylgja þeim sem smitast alla ævi. Þetta á við kynsjúkdóma sem orsakast af veirum eins og HIV, kynfæravörtur og kynfæraáblástur.
- Aðra kynsjúkdóma getur maður fengið aftur og aftur. Það myndast ekki ónæmi gegn þeim þótt maður hafi áður fengið meðferð við þeim.
- Að vera með einn kynsjúkdóm getur auðveldað smit á öðrum kynsjúkdómum. Það er því hægt að hafa fleiri en einn kynsjúkdóm samtímis.
- Sumir kynsjúkdómar geta smitað fóstur á meðgöngu eða barn í fæðingu.
- Álíka margir karlar og konur fá kynsjúkdóma.