Andlits sjúkdóms - Umfjöllun um HIV

Andlits sjúkdóms - Umfjöllun um HIV

Í Andliti sjúkdóms er fjallað um HIV á Íslandi, og skyggnst inn í menningarkima sem hingað til hefur verið lokaður. Á uppplýsandi, einlægan og jákvæðan hátt er leitast við að leiðrétta gamaldags hugmyndir um þennan málflokk. Umsjón: Eva Guðrún Gunnbjörnsdóttir, menningarmiðlari.

 

1. þáttur - Greining á HIV-veirunni

Í fyrsta þætti Andlits sjúkdóms er grennslast fyrir um hverkonar upplifun það er fyrir einstaklinga að greinast með HIV-veiruna og gerð grein fyrir þeirri sjálfsfordæmingu sem fólk gengur í gegnum. Einnig er fjallað um hluti sem ekki eru almenn vitneskja fólks um HIV. (MP3 podcast RÚV 2. júlí 2012)


 

2. þáttur - Menningarkimi HIV-jákvæðra sprautufíkla

Í öðrum þætti Andlits sjúkdóms er skyggnst inn í menningarkima HIV-jákvæðra sprautufíkla og hugmyndafræði svokallaðrar skaðaminnkunnar er kynnt til sögunnar. (MP3 podcast RÚV 9. júlí 2012

 

3. þáttur - Litið yfir farinn veg

Í þriðja og síðasta þætti Andlits sjúkdóms er litið yfir farinn veg í sögu HIV-jákvæðra á Íslandi. Hafa viðhorf almennings breyst? Hefur þekking almennings á veirunni aukist? Í þessum lokaþætti er einnig komið inn á þátt fjölmiðla og hlutirnir settir í stærra samhengi. (MP3 podcast RÚV 16. júlí 2012)

 

Þættirnir eru enn aðgengilegir á hlaðvarpi Rásar 1: Andlit sjúkdóms

 

Meistaraprófsritgerð

Þessir þrír útvarpsþættir sem voru fyrst fluttir á Rás 1 í júlí 2012 eru afrakstur rannsóknar Evu Guðrúnar Gunnbjörnsdóttur á málaflokknum HIV á Íslandi. Rannsóknin og þættirnir eru hluti af meirstaraprófsritgerð hennar sem má lesa hér: Andlit sjúkdóms

Þar segir meðal annars í ágripi:

Markmið verkefnisins „Andlit sjúkdóms“ er að miðla því hvernig HIV-veiran hefur áhrif á líf HIV- jákvæðra, hvernig upplifun það var að greinast með veiruna á árum áður og hvernig sú upplifun er öðruvísi í dag. Um er að ræða rannsókn á því sem höfundur túlkar sem lokaðan menningarkima og reynir að opna fyrir með hjálp útvarpsmiðilsins. Reynt er að komast að því hvort fordómar gegn HIV-veirunni og fólki með hana hafi minnkað í takt við að viðráðanlegra er að eiga við veirusýkinguna í dag en áður eða hvort lítið hafi áunnist með fræðslunni um hana. Einnig er athugað hvort ekki sé að finna nýjar (eða lítið þekktar) upplýsingar um lífið með HIV og hvort megi miðla þeim áfram í útvarpi. Rannsóknin stóð yfir frá haustinu 2010 til byrjun árs 2012 en lokið var við gerð útvarpsþáttaraðarinnar í lok ársins 2011.

Það sem rannsóknin leiddi í ljós var hversu víða fordómar gagnvart HIV-veirunni eru og hve alvarlegar félagslegar afleiðingar þeir geta haft fyrir HIV-jákvæða einstaklinga. Einnig skerpti rannsóknin um leið á því hversu alvarlegar afleiðingar fordómar geta einnig haft fyrir ósmitaða, því sé fólk illa upplýst er það í meiri áhættu á að smitast en ella. Það voru fordómar í framsetningu fjölmiðla á málefninu, þeir voru úti í samfélaginu, einnig mátti finna þá sumsstaðar innan heilbrigðiskerfisins en ekki síst á meðal hinna HIV-jákvæðu einstaklinga sjálfra sem voru margir hverjir að vinna sig út úr vissri sjálfsfordæmingu. Sjálfsfordæming virtist vera einn sá erfiðasti hjalli sem HIV-jákvæðir einstaklingar þurfa að yfirvinna. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu einnig til þess að þar til HIV-jákvæðir hafa náð sátt við sjálfa sig og sjúkdóminn HIV/alnæmi verða fordómar þeim áfram viss byrði.

Tilgangur útvarpsþáttanna var að opna glugga inn í menningarkima HIV-jákvæðra og opna þannig fyrir umræðuna um fordóma og HIV-veiruna. Ekki var viðbúið að það tækist að fara yfir allan málaflokkinn í einu vettfangi en til þess þyrfti líklega áframhaldandi djúpar og rannsakandi umræður á fleiri en einum vettvangi. Ef tekist hefur að miðla áhrifum sjúkdómsins HIV/alnæmi á líf fólks með HIV-veiruna eða ef að einhverju leyti hefur með útvarpsþáttunum tekist að leiðrétta einhverjar gamaldags hugmyndir um málaflokinn HIV á Íslandi má segja að markmiði verkefnisins hafi verið náð.

 

Tengdar greinar