Út úr skápnum - 13 viðtöl | mbl.is

Út úr skápnum - 13 viðtöl | mbl.is

Að koma út úr skápnum er í senn ein erfiðasta og besta lífsreynsla sem fólk stendur frammi fyrir. 2012 birti mbl.is þættina Út úr skápnum og þar kynnumst við sögu fólks sem hefur kynnst þessu af eigin raun og þeirri gleði, sorg og áhyggjum sem þessari ákvörðun fylgir. Þættirnir eru enn aðgengilegir á mbl.is og hér er yfirlit yfir þær 13 manneskjur sem rætt var við.


24. apríl 2012

Út úr skápnum daginn fyrir ferminguna

Ástrós Lind Halldórudóttir uppgötvaði snemma að hún væri lesbía. Daginn fyrir ferminguna sína kom hún út úr skápnum gagnvart nánustu fjölskyldu og var vel tekið. „Mamma tók þessu vel og sagðist elska mig alveg jafn mikið. Þetta kom henni ekki á óvart,“ segir Ástrós sem í dag er 17 ára gömul og er sátt við líf sitt sem ung lesbía á Íslandi í dag. Rætt er við Ástrósu og móður hennar í þættinum Út úr skápnum hér á MBL sjónvarpi.

 

3. apríl 2012

14 ára út úr skápnum

Eyjólfur Kristopher Kolbeins var aðeins fjórtán ára þegar hann kom út úr skápnum. Hann segist hafa verið heppinn með umhverfi og aðstæður og að sér hafi alls staðar verið vel tekið. „Pabbi var alltaf kallaður ofurpabbinn,“ segir Eyjólfur, sem er þakklátur föður sínum fyrir stuðninginn þegar skrefið var stigið. Rætt er við Eyjólf og föður hans í þættinum Út úr skápnum hér á mbl sjónvarpi.

 

26. mars 2012

„Óhamingjusöm og ólukkuleg“

Margrét Pála Ólafsdóttir, leikskólakennari og höfundur Hjallastefnunnar, segist alltaf hafa fundið að hún var öðruvísi. Það var hins vegar ekki fyrr en hún kyssti konu í fyrsta skipti 26 ára gömul að það rann upp fyrir henni að hún væri samkynhneigð. Margrét Pála segir frá því þegar hún kom úr úr skápnum og viðbrögðum vina, ættingja og samfélagsins í kjölfarið í þættinum „Út úr skápnum“ á Mbl sjónvarpi.

 

19. mars 2012

Anna Pála kom óvart úr úr skápnum

„Þetta er örugglega eitt af því minnst planaða sem ég hef gert,“ segir Anna Pála, sem upplýsti heiminn um samkynhneigð sína í ræðu sem hún hélt hjá ungum jafnaðarmönnum. Eftir að Anna Pála hélt ræðuna hringdi hún strax í ömmu sína og greindi henni frá því að hún hefði komið út úr skápnum. Anna Pála segir sögu sína í Út úr skápnum í MBL sjónvarpi.

 

12. mars 2012

„Þetta mátti ekki fréttast“

Sigurður J. Guðmundsson lenti í einelti í barnæsku og fannst ekki á það bætandi að upplýsa heiminn um að hann væri samkynhneigður. „Þetta var mitt leyndarmál og ég ætlaði að deyja með það.“ segir Sigurður sem síðar fann sína leið út úr skápnum. Sigurður segir sögu sína hér í Út úr skápnum á mbl.

 

5. mars 2012

„Vildi ekki kyssa kærusturnar“

Það kom fáum á óvart þegar Guðmundur Smári kom út úr skápnum. „Smári minn, ertu viss um að þú sért ekki bara hommi?“ spurði mamma hans hann þegar hann var sextán ára. Fyrsta kærastan hætti svo með honum af því að hann vildi ekki kyssa hana. „Þannig að ég hef alltaf verið hommi,“ segir Smári sem segir sögu sína í þættinum Út úr skápnum hér á MBL Sjónvarpi.

 

27. febrúar 2012

Lifir „hinsegin“ lífi á Íslandi

Anita Rübberdt var orðin 17 ára þegar hún hitti lesbíu í fyrsta sinn. Síðar áttaði hún sig á því að hún var skotin í þessari stelpu. 28 ára (2009) flutti Anita til Íslands og hóf þá að lifa hinsegin lífi. „Ég kalla mig ekki lesbíu, frekar hinsegin, einfaldlega af því að ég veit ekki hvað gerist í framtíðinni.“

Anita á þó ennþá eitt mikilvægt skref eftir til að komast alveg út úr skápnum.

 

20. febrúar 2012

Samkynhneigð var ekki til

Þorvaldur Kristinsson fæddist árið 1950. Þegar hann var að alast upp var ekki til neitt sem hét samkynhneigð. „Þjáningin okkar í þá daga varði miklu lengur,“ segir Þorvaldur um reynslu sína að koma út úr skápnum. „Strákar voru alltaf til staðar í draumum mínum, ekki stelpur.“

 

13. febrúar 2012

„Mamma, ég er lesbía"

Kidda rokk er 38 ára þriggja barna móðir, smiður að mennt, sem er að klára nám í félagsráðgjöf. Hún hefur verið gift sömu konunni í níu ár. Kidda undirbjó sig vel áður en hún kom út úr skápnum gagnvart foreldrum sínum. Sá undirbúningur reyndist óþarfur. 

 

7. febrúar 2012

„Stundum vildi ég að ég væri ekki samkynhneigður“

„Stundum efast ég um að sá lífsstíll sem ég hef valið henti mér,“ segir Hafsteinn Þór Guðjónsson sem er betur þekktur sem Haffi Haff. „Ég hugsa oft um að eignast fjölskyldu. Það mun þó ekki breyta kynhneigð minni. En þetta kemur þó oft upp í huga mér,“ segir Haffi.

 

30. janúar

Áttaði sig á samkynhneigð sinni 6 ára

„Að vera hommi á þessum tíma var alltaf þessi spurning um hvort maður væri með alnæmi,“ segir Heimir Már Pétursson. Hann áttaði sig snemma á því að hann var samkynhneigður. „Ég hélt lengi að allir strákar væru eins og ég. Það var dálítið sjokk að komast að því að svo var ekki,“ segir Heimir í þættinum Út úr skápnum á MBL Sjónvarpi.

 

24. janúar

„Hefði viljað segja mömmu og pabba sjálfur“

„Það var alltaf strákur í skólanum sem mér þótti svo sætur en ég vissi ekkert hvað það þýddi,“ segir Elis Veigar Ingibergsson sem kom út úr skápnum þegar hann var 18 ára. „Ég vissi að ég væri samkynhneigður þegar ég var 16 eða 17 ára en það var fyrst 18 ára sem ég gat horft á sjálfan mig í spegli og viðurkennt það“, segir Elis en um hann er fjallað í nýjasta þættinum af Út úr skápnum á MBL sjónvarpi.

 

16. janúar

„Kærastan sú fyrsta sem ég sagði frá“

„Frekar ætlaði ég lifa bara óhamingjusamur svokölluðu eðlilegu lífi, eða bara sleppa því að lifa, frekar en að fara viðurkenna eitthvað svona,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson 23 ára Hornfirðingur sem kom út úr skápnum fyrir nokkrum árum. Saga Gunnlaugs er til umfjöllunar í nýjasta þætti af Út úr skápnum á MBL Sjónvarpi.

 

9. janúar

„Erfiðast að segja 5 ára dóttur minni“ 

Hafdís Hinriksdóttir var 27 ára þegar hún kom út úr skápnum. „Þetta er þvílíkt frelsi. Maður getur loksins fengið að vera sú sem maður er“, segir Hafdís um reynslu sína í glænýjum þætti á MBL Sjónvarpi. „Mér fannst erfiðast að segja 5 ára dóttur minni“, segir Hafdís en hún segir að viðbrögð hennar hafi komið sér á óvart.