Hvar fer ég í kynsjúkdómatékk?

Það er mikilvægt að þeir sem stunda skyndikynni fari reglulega í kynsjúkdómatékk til að gæta að eigin heilsu og rekkjunauta sinna, minnst einu sinni á ári. En hvar fer ég í tékk? Hægt er að panta tíma hjá göngudeild húð- og kynsjúkdóma á Landspítalanum í Fossvogi (í daglegu tali nefnd „Húð og kyn“) . Þegar þú ferð í tékk er mikilvægt að óska eftir því að fara í öll próf sem standa til boða en þetta eru próf við lekanda, sárasótt, klamidýu, lifrarbólgu og HIV. Á Húð og kyn er skilað inn þvagprufu (mikilvægt að vera ekki búinn að pissa í a.m.k. 2 klukkutíma), ásamt blóðprufu og stroku úr munni og endaþarmi. Niðurstöður liggja að öllu jöfnu fyrir eftir um viku en eins undarlegt og það kann að virðast þá er einungis haft samband ef eitthvað athugavert finnst í einhverju þeirra prófa sem eru tekin. Það er engu að síður mælt með að hafa samband við Húð og Kyn símleiðis og fá niðurstöður prófanna til að vera alveg viss um að allt sé í lagi og ef eitthvað er að, að inngrip gangi fljótt fyrir sig. Séu niðurstöður einhverra prófanna jákvæð (þ.e. smit greinist) þá er nauðsynlegt að hafa samband við rekkjunauta og láta vita af niðurstöðunum sem allra fyrst þar sem viðkomandi kann að hafa smitast og geti farið í tékk.

Það á að vera sjálfsagður og eðlilegur hlutur að fara reglubundið í kynsjúkdómatékk. Sumum kann að finnast það óþægilegt og fráhrindandi að fara í tékk, draga það á langinn og fara alltof sjaldan. Reglubundið kynsjúkdómatékk er hinsvegar mikilvægur hluti þess að stunda ábyrgt kynlíf og ætti að vera fastur liður hjá öllum.

Hægt er að panta tíma hjá göngudeild húð- og kynsjúkdóma hjá alla virka daga frá kl. 8:00 til 16:00 í síma 543-6050.

Frekari upplýsingar eru t.d. hér:

http://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/klinisk-svid-og-deildir/dag-og-gongudeildir/gongudeild-hud-og-kynsjukdoma/

http://doktor.is/sjukdomur/kynsjukdomar-2

https://www.heilsuvera.is/markhopar/sjukdomar-og-einkenni/kynsjukdomar/

https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item2811/