Sendu mér Eyjólf minn aftur! - Samkynhneigðum unglingum til íhugunar

Sendu mér Eyjólf minn aftur! - Samkynhneigðum unglingum til íhugunar

Að játa samkynhneigð sína fyrir nánustu ástvinum er flókið mál og erfitt fyrir flesta unglinga. Gamalt hugboð um það að vera á einhvern hátt öðruvísi en annað fólk, jafnvel allt frá því í bernsku, verður að vissu á þeim árum þegar mikið rót er á vitsmunum og tilfinningum unga fólksins. Þau ár eru þjáningarfull og flókin fyrir flesta. Hver er ég? Hver er tilgangurinn með lífi mínu? Hvernig get ég uppfyllt væntingar fólksins míns – og eru þær þess virði að mæta þeim? Hvað vil ég innst inni? Það sama og pabbi og mamma halda að mér sé fyrir bestu? Þetta eru algengar spurningar ungs fólk á þroskaárunum þótt þær séu kannski aldrei sagðar upphátt. Þegar við bætast heilabrot, áhyggjur og angist vegna eigin kynhneigðar er lífið ekki beinlínis auðvelt. En það þarf alls ekki að vera óbærilegt ef rétt er á spilunum haldið.

Dag nokkurn horfir unglingurinn í spegilinn og þorir loksins að orða það sem eitt sinn var grunur en er núna orðinn að fullvissu: Ég er hommi. Ég er lesbía. Og líður eins og hann eða hún sé einn eða ein á hnettinum. Ekki af því að þau viti ekki af öðru samkynhneigðu fólki, heldur af því að þau óttast það og reyna að sniðganga það. Frá fyrstu bernsku hefur heimurinn kennt þeim að hommar og lesbíur séu ekki sú fyrirmynd sem æskilegust er. Upp í hugann koma skammaryrði af skólaleikvellinum: „Helvítis homminn þinn,“ sagði besti félagi þinn einu sinni þegar hann reiddist. „Éttu skít, lessudjöfull,“ sagði stelpan sem öllu vildi ráða í klíkunni þegar þú ógnaðir valdi hennar. Þegar allar þessar minningar safnast saman uppi í kollinum verða þær að lítilli lögreglu sem sér til þess að hinn samkynhneigði leynir sínum innri manni og magnar upp vandann án þess að nokkur viti. Og er þar með á háskabraut. Því að það er mjög hættulegt sálarheill hverrar manneskju að þurfa að glíma við miklar og sterkar tilfinningar án þess að eiga sér trúnaðarvin sem stendur með manni.

Þau laumast samt til þess að fylgjast með öllu sem birtist um lesbíur eða homma í fjölmiðlum. Sumt er í æsifréttastíl og ætlað að kitla eitt og annað í hugmyndum manna. Annað er upplýsandi og beinlínis eftirsóknarvert, og unglingurinn getur ekki stillt sig um að dást að þeim sem hafa á einhverju augnabliki ævinnar ákveðið að standa við tilfinningar sínar og rækta þær. Þau þekkja fyrir löngu orðatiltækin – að koma úr skápnum, að koma úr felum. Innst inni vita þau að þetta er það sem þau vilja. Og vita um leið að þau tilheyra miklum minnihluta fólks á jörðinni.

Hvers vegna er það svona mikilvægt? „Ég þarf nú ekki að auglýsa það þótt ég fari í rúmið með öðrum strákum,“ sagði piltur nokkur og það er í sjálfu sér alveg rétt. En líf samkynhneigðs fólks snýst um fleira en kynlíf þó að kynhvötin sé sá mikli kraftur sem leiðir lesbíur og homma á vit ástarinnar – rétt eins og allar aðrar manneskjur. En að takmarka samkynhneigð sína við kynlífið eitt er sjálfskúgun af versta tagi. Samkynhneigð snýst um það að rækta ást og vináttu við aðrar samkynhneigðar manneskjur og reynslan sýnir að það gerir enginn með góðu móti í felum. Vilji manneskjan eiga möguleika á að njóta ástar og vináttu við sína líka verður hún að gera heiminum kunnugt um tilfinningar sínar. Svo einfalt er það mál.

Þá kemur að foreldrunum, þeim nánustu á því skeiði ævinnar sem hér um ræðir. Hvernig er hægt að gera þá að þátttakendum í þessari vitneskju? Verður einhvern tíma hægt að vænta þess að þeir virði afkvæmi sitt sem lesbíu eða homma? Er hægt að vænta þess að mamma og pabbi standi með syninum eða dótturinni og styðji þau af heilum hug? Svarið fæst ekki nema maður láti á það reyna. Margir hafa reynt á undan þér, er svar mitt við ungt fólk, og flestum tekist – að vísu ekki alltaf án sársauka.

 

Skipt á hlutverkum

Þegar leiðbeina skal ungum lesbíum og hommum í samskiptum við foreldrana er mikilvægt að ræða það sem kalla má hlutverkaskipti. Hvernig við orðum það ræðst auðvitað af aðstæðum og viðmælanda, en kannski má lýsa því eitthvað á þessa leið:

„Hingað til hefur þú sennilega verið þiggjandi í samskiptum við foreldra þína. Þeir hafa leiðbeint þér og kennt, skipað fyrir, talað um fyrir þér, varað þig við og lagt á ráðin, tekið utan um þig og huggað þegar þér mistókst og sannfært þig um að betur gengi næst þegar þú reyndir. En nú er hlutverkum snúið við, sennilega í fyrsta sinn á ævinni.

Þetta er erfiður tími. Þú finnur til óöryggis í þessu nýja hlutverki og foreldrar þínir sömuleiðis sem þiggjendur. Í fyrsta sinn uppgötvarðu að það tekur tíma að læra eitthvað nýtt. Foreldrar þínir sýndu þér ómælda þolinmæði á þeim árum þegar þú varst að læra á lífið því að þú þurftir þinn tíma. Reyndar manstu minnst af því. En mundu samt að nú þurfa þeir sinn tíma til að læra og nema. Ef að líkum lætur hafa þeir forðast og útilokað flest sem heitir fróðleikur um samkynhneigð nema þeir hafi átt nána vini eða ættingja sem eru lesbíur eða hommar. Og jafnvel þó svo sé þá áttu eftir að uppgötva að þekking þeirra er í molum. Pabbi þinn og mamma hafa sennilega aldrei séð ástæðu til að nálgast líf samkynhneigðra af alvöru, málið hefur aldrei brunnið á þeim og þau þráast við. Þú vilt ábyggilega að þau skilji allt á einu kvöldi, þú reiðist, finnst þér hafnað, en láttu ekki eftir þér að bregðast þannig við. Þá ertu á flótta og eigingirnin hefur tekið völdin. Ástin til þinna nánustu snýst um það að gefa, jafnvel þótt gjafir komi ekki á móti.

Þú verður að sýna þolinmæði og umhyggju, útskýra það sama aftur og aftur, og leita nýrra leiða þegar allt virðist komið í hnút. En til þess þarftu talsverða þekkingu og skilning á því um hvað líf þitt snýst. Þú þarft að endurtaka það sama aftur og aftur og oft finnst þér þú vera á hálum ís – í hlutverki kennarans í fyrsta sinn í lífinu. Þó að þú hafir sagt setninguna áður þýðir það ekki að þau hafi heyrt hana. Skilningurinn kviknar hægt – átakanlega hægt – því að geðshræringarnar valda því að vitið lætur á sér standa. En þá skaltu hugsa til þeirra ára þegar mamma þín og pabbi gáfu þér alla sína þolinmæði. Það voru þau sem kenndu þér að ganga og tala og verjast hörku heimsins, og þú ættir bara að vita hvað það tók þau langan tíma og kostaði margar fórnir. Þau eiga skilið að þú launir líku líkt. Það kostar líka þolinmæði og fórnir að koma foreldrum til manns.“

Því er ekki að neita að þetta er hart og ósanngjarnt hlutskipti, að þurfa að kenna og leiðbeina sér eldra fólki á unga aldri, á þeim árum þegar maður á að fá að njóta lífsins eins og aðrir unglingar. Það er engri manneskju nærtækt og auðvelt að standa í því að útskýra ástarþrá sína og girnd, útskýra hvaða máli það skiptir fyrir hamingjuna að fá að lifa sýnilegu ástarlífi. Gagnkynhneigðir unglingar þurfa þess ekki. En þetta hefur því miður lengi verið hlutskipti þeirra sem tilheyra minnihlutahópi samkynhneigðra og eina leið þeirra svo lengi sem heimili og skóli vanrækja uppeldis– og fræðsluskyldu sína í þessum efnum.

 

Stiklur á leiðinni

Til þess að lesbíur og hommar skilji og höndli viðbrögð sinna nánustu, er mikilvægt að átta sig á að við fyrstu fréttirnar líður mörgum foreldrum eins og um ástvinamissi sé að ræða, eins og sonur þeirra eða dóttir hafi dáið frá þeim. Sígildar hugmyndir um sorg og sorgarferli eiga hér vel við:

  • Harmur
  • Uppnám
  • Afneitun
  • Sektarkennd

 

Harmur og missir

Eins og við ástvinamissi snúast fyrstu tilfinningar foreldra lesbía og homma iðulega um missi, aðskilnað, sorg og reiði. Faðir einn segir svo frá:

Eyjólfur stóð við eldavélina morguninn eftir að hann hafði sagt okkur allt um sjálfan sig og var að steikja beikon og egg, eins og hann hafði gert á hverjum morgni frá því hann var þrettán ára. Ég sat við eldhúsborðið með kaffibollann og Moggann í höndunum og laumaðist til að horfa á hann og mig langaði mest til að segja: „Ég veit ekki hver þú ert en ég vildi bara að þú hypjaðir þig og sendir mér Eyjólf minn aftur!“

Staðreyndin er sú að ótrúlega margir foreldrar skynja það sem sáran harm þegar börn þeirra segja þeim frá samkynhneigð sinni og fyllast sorg og reiði, en ef tilfinningalífið nær að hreyfast og þroskast er aðeins um tímabundið ástand að ræða. Og að hafa skilning á þessum harmi léttir mörgum samkynhneigðum róðurinn, það að kunna að kalla hann sínu rétta nafni án mikilla geðshræringa.

Þó að þau stig sem hér eru nefnd eigi að einhverju leyti við flesta foreldra þá er dæmið ekki svo einfalt. Stundum skýtur einu stigi tilfinninganna upp þegar ætla mætti að það væri afstaðið og endurtekur sig hvað eftir annað, stundum verður alls ekki vart við eina tilfinningu en önnur tekur völdin hvað eftir annað. Sumir foreldrar vinna sig í gegnum tilfinningarnar á þremur dögum, aðrir á þremur mánuðum, og enn aðra tekur það mörg ár. Fáeinir standa fastir í sömu sporum og þar á sjálfsvorkunnin stærstan hlut að máli: „Hvað varð af barninu mínu?“

Þegar ung og ómótuð samkynhneigð manneskja mætir þessu liggur henni oft við að örvænta. Þá er gott að minna á að flestir foreldrar halda að þeir þekki börn sín og skilji þau betur en aðrir. Þeir halda fast við gamlar minningar og finna öryggistilfinningu við að rifja þær upp: „Þú ert nú einu sinni þannig gerður,“ eða „ég man að þú brást alltaf svona við, bara smástelpa.“ Þó að veruleikinn segi allt annað þá halda flestir að þeir viti hvað hrærist innra með barni sínu. Það er misskilningur. Foreldrar vita færra en þeir halda um það sem fram fer í huga barna þeirra, og þar af stafar sársaukinn. Þegar kemur að samkynhneigðinni komast pabbi og mamma að raun um að sá skilningur sem þau höfðu á dóttur sinni eða syni stenst ekki próf veruleikans, og þau vita ekki hvernig á að bregðast við þessari manneskju sem stendur frammi fyrir þeim, næstum fullorðin, og krefst réttar síns til lífsins. Þeir foreldrar sem þjást hvað mest eru líklega þeir sem skynja sorgina og missinn hvað sterkast og finnst þeim vera hafnað. Það sára snýst ekki um það að þeir telji sig vera að hafna afkvæmum sínum, heldur finnst þeim börnin hafa hafnað þeim.

Í dæmigerðu fjölskyldulífi hafa foreldrarnir líklega skynjað fjarlægðina um nokkurn tíma, það er eins og veggur hafi myndast milli þeirra og stelpunnar eða stráksins sem einu sinni sagði þeim hug sinn allan. Sú uppgötvun er kvalafull, ekki síst ef þetta ástand varir lengi. En með skilningi og vilja af beggja hálfu er hægt að öðlast aftur það samband sem eitt sinn var – en nú á nýjum forsendum. Þær forsendur snúast um heiðarleika og opinn huga af beggja hálfu.

 

Í átt að skilningi

I – Í uppnámi

Nítján ára kunningi minn kom í heimsókn einu sinni sem oftar fyrir nokkrum árum og sagði: „Jæja, nú er stormurinn skollinn á heima.“ Ég vissi strax við hvað hann átti. Við ræddum málin, ég reyndi að miðla af reynslunni en fann að svörin voru takmörkuð. Svo fór hugurinn af stað og bjó til miklu betri svör en þau sem ég hafði gefið honum en þá var sá sem spurði fyrir löngu þotinn í burtu:

Þú mátt búast við því að foreldrar þínir komist í uppnám og fái áfall hafi þeir ekki haft minnsta hugboð um það sem í vændum var. Þetta uppnám stendur kannski í tíu mínútur, kannski í viku, en yfirleitt er það um garð gengið eftir nokkra daga. Uppnám þeirra er hluti af eðlilegum viðbrögðum allra manna við nýjum og óvæntum aðstæðum, sammannlegt neyðarviðbragð til þess að mæta aðsteðjandi kvöl, háska, eða vanlíðan.

Reyndu að útskýra fyrir þeim að þér hafi fundist skorta heiðarleika frá þinni hálfu og að þú getir ekki hugsað þér að lifa við þá fjarlægð sem hafi myndast á milli þín og þeirra. Leggðu áherslu á fjarlægðina því að þau hafa líka fundið fyrir henni og þjáðst fyrir hana. Segðu þeim vafningalaust að þér þyki vænt um þau. Ykkur er kannski ekki tamt að tala saman á þeim nótum, en þá er sannarlega kominn tími til að læra það. Öllum er nauðsynlegt að kunna að orða ást sína til nánustu aðstandenda ef hún er á annað borð fyrir hendi. Segðu þetta oftar en einu sinni. Þótt þau hrökkvi undan, verði vandræðaleg og geti engan veginn brugðist jákvætt við tali þínu um tilfinningarnar til þeirra, þá síast það engu að síður inn og skiptir máli næstu stundir og daga þegar þau fá næði til að hugsa um tíðindin í einrúmi. Minntu þau á að þú ert sami sonurinn þú varst í gær. „Ykkur þótti vænt um mig í gær – áður en ég sagði ykkur frá þessu; ég hef ekkert breyst á einum sólarhring.“

Kannski verður ekki um neitt áfall að ræða þótt einhver hafi rokið upp eitt augnablik, kannski segja foreldrar þínir sallaróleg á morgun: „Ég fann alltaf að þú varst einhvern veginn öðruvísi en hinir strákarnir og gerði ráð fyrir þessum möguleika. Auðvitað þykir mér vænt um þig, en þú verður að hjálpa mér til að skilja þig svo ég geti lifað góðu lífi með staðreyndum lífsins. Það er gott að þú ert loksins tilbúinn til að tala um þetta við okkur.“ Ef viðbrögðin eru svipuð þessu þá er eftirleikurinn talsvert auðveldari því að foreldrar þínir hafa unnið fyrstu heimavinnuna einir og óstuddir. Gleymdu þá ekki að þakka þeim fyrir að hafa skynjað hvað var að gerast og ákveðið að taka skynsamlega á málinu. Þar með er ekki sagt að hægt sé að láta málið niður falla, enn eigið þið margt eftir órætt.

 

II – Afneitun

En ekki er allt svona auðvelt. Afneitunin er viðbragð margra. Með því að loka eyrunum fyrir fréttum sem virðast ógnvekjandi og valda þjáningu, bregðast allar manneskjur við með því sem kallað er afneitun. Reynslan sýnir hvað það er mikilvægt að kenna ungu fólki að þekkja allar þær myndir sem afneitunin getur tekið. Pabbi og mamma hafa heyrt tíðindin en reyna allar leiðir til að útiloka þau með þeim vörnum sem mannshugurinn ræður yfir. Tökum dæmi:

Fjandskapur: „Þú skalt ekki voga þér að vera með svona kjaftæði. Það þarf enginn að segja mér að ég hafi alið af mér homma.“

Heyrnarleysi: „Þú hefur það eins og þér sýnist, elskan. Heyrðu, eigum við ekki að elda okkur eitthvað gott í kvöldmatinn.“

Kæruleysi: „Þú velur þína leið í lífinu eins og þér sýnist, ég kæri mig bara ekkert um að heyra neitt um það.“

Sjálfsblekking: „Það ganga nú svo margar stelpur í gegnum svona lagað á þínum aldri, þú getur ekki verið viss um þessa hluti, bara fimmtán ára.“

Víst hafa foreldrarnir áttað sig á staðreyndinni en vitund þeirra er afbökuð af öllum þeim skilaboðum og hugmyndum sem þeir hafa móttekið um ævina frá því samfélagi sem lítur niður á samkynhneigða, óttast þá eða fyrirlítur. Afneitun getur bæði verið hávær og lágvær: Sumir sitja eins og steinrunnir, aðrir æpa og að enn öðrum sækir móðursýkislegur grátur. Allt útilokar það skilning og samskipti um tíma. Algengustu viðbrögðin eru sennilega þau að foreldrar verða um tíma þögulir og fjarlægir og ýmsir gráta hljóðlega í laumi.

Það er á stigi afneitunarinnar sem foreldrar stinga gjarnan upp á því að börn þeirra leiti til sálfræðings, geðlæknis eða annars fjölskylduráðgjafa. Reynsla þeirra sem sinna félagsmálum lesbía og homma er sú að það sé undantekningarlaust ágætis kostur. Að ræða sársauka sinn og ráðleysi við þriðju manneskju sem hefur kunnáttu til að tala við fólk í samskiptavanda er yfirleitt af hinu góða. Og í seinni tíð eru dæmi þess að samkynhneigðir unglingar eigi frumkvæði að slíkum fundum. Stundum hafa þeir leitað til menntaðs ráðgjafa áður en þeir töluðu við foreldrana.

„Ég vil ekkert tala um þetta“ er sú tegund afneitunar sem vert er að benda þeim á sem leitar ráða. Þá er ástæða til að hvetja viðkomandi til þess að láta kyrrt liggja en taka málið upp aftur rólega og gætilega eftir einhvern tíma. Til dæmis svona: „Pabbi, ég hef í nokkur ár ætlað að tala um þetta við þig. Ekki loka þig af. Ég vil ekki þurfa að gefa þér falska mynd af mér, ég þorði bara ekki fyrr en núna.“ Margir komast að raun um að með svo persónulegri og nákominni nálgun eru meiri líkur á að hinum samkynhneigða takist að rjúfa varnarvegginn. 

 

III – Sektarkennd

Sektarkenndin er það stig í þessu ferli sem flestir þekkja. Fjölmargir foreldrar líta á samkynhneigð barna sinna sem „vandamál“ þegar hún mætir þeim í fyrsta sinn og spyrja: „Hvað veldur henni?“ Og halda um leið að ef hægt er að greina ástæðu þá sé lausnin handan við hornið.

Reynslan sýnir að ástríkir foreldrar orða spurninguna sjaldan svona beint. Þeir líta frekar í eigin barm og spyrja: „Hvað gerði ég rangt?“ Þar hugsa þeir ýmist um erfðir eða áhrif umhverfisins og ásaka sjálfa sig óspart. En sektarkenndin leiðir ekki til neins nema frekari þjáningar. Kjarni þessarar þráhyggju er oft sú hugmynd að til sé eitthvað sem kalla mætti hina sönnu fyrirmynd. Í því sambandi má vitna til konu einnar sem sagði við mann sinn þegar henni þótti nóg komið af hugarangri hans:

Hvert heldurðu að þú komist með því að saka sjálfan þig um að hafa gert eitthvað rangt. Þú ólst upp þrjá syni, einn er samkynhneigður hinir ekki. Ef þú ætlar að leita að ástæðu finnurðu hana varla í sjálfum þér. Og hvers vegna þarftu ástæðu? Vegna þess að þú vilt breyta því sem orðið er og hefur kannski alltaf verið. Með því að ásaka sjálfan þig finnst mér þú bara vera að segja að það sé eitthvað að syni okkar. Er þetta nokkuð nema eigingirni?

Að sjá ekki líf og líðan sonarins eða dótturinnar fyrir heilabrotum um eigið líf, það er mannlegt en gefur lítið af sér. Þá er stundum gott að hafa í huga að unga fólkið er ekki sýna foreldrum sínum hreinskilni og játa fyrir þeim kynhneigð þína til þess að vekja með þeim sektarkennd. Þegar málin þróast svona má til dæmis svara á þessa leið:

Láttu svo lítið að hjálpa þeim, þau hafa svo oft hjálpað þér. Gerðu þeim það ljóst að þú trúir ekki á þetta einfalda orsakasamhengi milli þeirra sem fyrirmyndar og þín sem afkvæmis. Segðu þeim að það séu margar kenningar á lofti um ástæður samkynhneigðar en að allt séu það kenningar, byggðar á hæpnum grunni. Segðu þeim að með þessum vangaveltum leysið þið engan vanda. Ef svo væri, þá væru aðrir búnir að því á undan ykkur. Mundu að þau eru líklega mjög einangruð þessa stundina og hafa sennilega engan sem þau þora að tala við. Að því leyti er staða þeirra svipuð þinni þegar þú varst að taka fyrstu skrefin og átta þig á eigin tilfinningum.

Reyndu síðan næsta skref, að fá þau til að ræða við einhvern, hvað sem sektarkennd þeirra og blygðun líður. Á því stigi kann að vera erfitt að beina þeim þangað sem þú telur best að þau fari, þau vilja kannski létta á sér við einhvern sem þú heldur eða veist að muni hafa takmarkaðan skilning á lífi þínu. Það kann að reynast þér erfitt að fá þau til að leita fjölskylduráðgjafar sem samtök samkynhneigðra bjóða upp á, það er ekki ósennilegt að pabbi og mamma telji sig síst af öllu hafa eitthvað að sækja í „herbúðir óvinanna“. En það sakar ekki að reyna. Ef þau frétta að slík ráðgjöf stendur til boða og komast um leið að því að það er lífsreynt og sérmenntað fólk sem veitir slíka ráðgjöf, þá er eins víst að þau taki hugmyndinni fegins hendi. Segðu þeim frá því að til séu aðrir foreldrar sem hafa gengið í gegnum svipaða reynslu og þekki líðan þeirra. Það sé jafnvel hægt að finna umræðu- og stuðningshópa fólks sem á samkynhneigð börn. Þótt litlar líkur séu á því að þau telji sig eiga erindi í slíkan hóp þá festa þau upplýsingarnar sér í minni og nýta sér kannski síðar, því að innst inni þrá foreldrar þínir kannski mest af öllu að komast í kynni við aðra foreldra í sömu stöðu.

 

Tilfinningarnar öðlast mál

Þegar sektarkennd og sjálfsásökun rennur af foreldrum, þegar þeir sjá að slíkt leysir engan vanda, þá fyrst eru þeir tilbúnir að spyrja og segja hvað það er sem kvelur. Þá er rétt að minna á að lesbían eða homminn í fjölskyldunni á sennilega í vændum sársaukafullt skeið því að hugrenningar foreldranna eru kannski ekki allar þægilegar né lýsa þær virðingu fyrir dótturinni eða syninum. En það er ekki af hinu vonda að hleypa út vondum vessum. Má ég vitna í setningar sem sumir vinir mínir hafa haft eftir sínum nánustu: „Mér finnst þú vera að svíkja mig um barnabörnin.“ „Viltu lofa mér því að segja ekki orð um þetta við ömmu þína og afa í Grindavík, þau eru búin að þola nóg í lífinu.“ „Ég get bara ekki hugsað mér að tala um þetta við nokkra manneskju, þú sem varst langgáfaðastur af strákunum í fjölskyldunni.“

Þetta eru sundurslitnar setningar, hafðar eftir ungu fólki á ýmsum tímum á augnablikum trúnaðar og sársauka. Þá er gott að hafa í huga að þó að staða hins samkynhneigða og aðstandandans sé um margt ólík þá eiga báðir aðilar það sameiginlegt að vera mótaðir af þeim hómófóbísku viðhorfum sem ríkja í samfélaginu. Vaxandi virðing síðustu áratuga nær ekki að eyða þeirri staðreynd. Tilfinningarnar eru nefnilega meira og minna þær sömu hvort sem um samkynhneigða eða foreldra þeirra er að ræða: Einangrun, ótti við höfnun, ráðleysi og örvænting, kvíði fyrir framtíðinni og svo framvegis.

Faðir einn minnst þessara tíma þannig:

Einar nefndi það við okkur fyrst eftir að hann sagði okkur fréttirnar að við hittum Jón Örn sem hann kallaði kærastann sinn. En við höfðum engan áhuga á því. Þegar við hættum að ásaka sjálf okkur þá skelltum við skuldinni á Jón Örn. Allt það sem hafði dunið yfir heimilið, spillt friði, það ógnaði virðingu okkar og þetta voru launin fyrir að hafa reynst honum vel og veitt honum mikið. Svona hugsaði ég að minnsta kosti. En ekkert af þessu sagði ég upphátt við Einar, ég lokaði mig bara af með sársaukann og reiðina.

Þó að sá sem hér talar segði syni sínu ekki hvað inni fyrir bjó, þá er grunnt á slíkum tilfinningum hjá mörgum. Sársauki og reiði eru eðlileg viðbrögð þeirra sem orðið hafa fyrir áfalli. Þessi faðir sagði syni sínum ekki hug sinn fyrr en löngu seinna þegar málið var hætt að valda honum kvöl – sem betur fer kann einhver að segja. Að minnsta kosti er ekkert grín fyrir óharðnaða unglinga að mæta ofsafengnum tilfinningum foreldranna þegar þeir standa mitt í þeirri glímu við að byggja upp eigin sjálfsvirðingu. En um leið má minnast þess að þegar pabbi og mamma byrja að tjá tilfinningar sínar, þótt neikvæðar séu, þá eru þau farin að nema og læra og líkast til á góðri leið með að jafna sig.

 

Þrír ólíkir heimar

Ég vitnaði hér að framan til ungs samkynhneigðs vinar sem leitaði stundum til mín á árum áður og lýsti því hvað það er stundum erfitt að gefa gagnleg ráð þegar þörfin kallar. En ef hann skyldi birtast á morgun á sama aldri og í sömu stöðu, þá gæti ég sagt honum að ég hafi þrátt fyrir allt lært ögn af reynslunni og gæti spáð nokkru um það sem hann ætti í vændum. En að það fari eftir því til hvers konar fólks hann eigi að telja. Þessu má með nokkurri einföldun lýsa sem þremur heimum eða þrenns konar birtingarformum í samskiptum fjölskyldunnar. Oft flæða þessir heimar saman að einhverju marki og flestir ferðast úr einum heimi í annan, sumir hægt og með erfiðismunum, en aðrir eru meira en lítið ferðafúsir: 

 

I – Óbærilegt ástand

Í sumum tilvikum ríkir viðvarandi stríðsástand á heimilinu varðandi allt sem lítur að kynhneigð þinni. Allt sem þú gerir og segir er tekið sem dæmi um „vandamál“ þitt – áhugamál og viðfangsefni, vinir og félagar eða talsmáti. Þegar málin standa þannig eru bæði þú og foreldrar þínir jafn illa settir. Slíkir foreldrar eru sennilega algjörlega einangraðir með tilfinningar sínar og forðast að ræða þær við nokkra sál, innan eða utan fjölskyldunnar. En líklega er það eina leiðin til að rjúfa óbærilegt ástand, að fá þá til að ræða við aðra með svipaða reynslu. Þú hugleiðir oft þá leið að slíta sambandi við fjölskylduna sökum þess hve andrúmsloftið er erfitt, en gefðu fólkinu þínu tíma og notaðu þann tíma til að finna manneskju sem foreldrar þínir gætu hugsað sér að tala við.

Hvernig sem málin þróast í fjölskyldunni má alltaf búast við því að foreldrarnir hrökkvi aftur í gamla farið. Ótti þeirra og einangrun stjórnar lífi ykkar allra. Vandi sem þú hélst að þið hefðuð leyst skýtur aftur upp kollinum þegar minnst varir. Láttu þér ekki bregða og taktu því sem eðlilegum hlut. Tvö skref fram og eitt til baka. Það er gamalkunnugt dansspor þeirra sem eru að reyna að endurmeta lífið og tileinka sér nýjan lærdóm. Það sem skiptir þig mestu máli er að skynja að vitsmunir og tilfinningar foreldra þinna eru á hreyfingu en standa ekki í stað. 

 

II – Með allt á hreinu en flest í steik

Stundum bregðast foreldrar við með því að gefa skýrt til kynna að málið sé útrætt og að þeir séu með „allt á hreinu“. Þeir geta talað um samkynhneigð barns síns að vissu marki en eru mjög óöryggir og finna sig knúna til að setja takmörk, þeir hafa náð vissu marki en treysta sér ekki til að skoða málið nánar. Þetta þarf ekki að tákna það að þau pabbi og mamma séu neikvæð gagnvart þér. En þau þekkja takmörk sín og vilja ekki láta þrýsta frekar á sig. Auðvitað verðurðu að virða það, en samt geturðu haldið áfram að reyna að fá þau til að nálgast líf þitt. Gefðu þeim stöðugt til kynna að þér þyki vænt um þau – í orði og verki – en minntu þau á að hinn samkynhneigði þáttur tilveru þinnar er þér mikilvægari en svo að þið getið numið staðar hér. Orðaðu varlega eitt og annað í lífi þínu sem tengist kynhneigð þinni, segðu þeim frá þeim samkynhneigðu vinum og félögum sem þú hefur eignast, og ef þú átt góðan félagsskap við samkynhneigt fólk þá láttu þess getið án þess að vera með málalengingar. Þau hlusta þótt þau láti eins og þetta skipti þau ekki máli. Aðalatriðið er að þú látir það ekki eftir þeim að fjarlægjast þig því nú hefur þú gert þitt til að nálgast þau. Ef þú átt góða samkynhneigða vini, kærasta eða kærustu, þá sjáðu til þess að foreldrar þínir hitti þau, helst óformlega og eins og af tilviljun. Drjúgur hluti af vanda þeirra er sennilega sá að þau eru uppfull af ranghugmyndum um samkynhneigt fólk. Þó að þau segi ekki neitt þá mun sennilega fátt hafa eins sterk áhrif á þau og að hitta samkynhneigða félaga þína og komast að raun um að þeir eru í öllum meginatriðum eins og stelpan eða strákurinn handan við götuna. Það versta sem þú gerir er að halda reynsluheimi þínum frá þeim. 

 

III – Ástvinasamband án skilyrða

Langflestir foreldrar eiga nógu heilsteypta skapgerð til að rækta sömu tilfinningar til dóttur sinnar eða sonar og áður en þeim bárust tíðindin. Þetta eru þeir foreldrar sem þegar í stað eru færir um að segja þessi gömlu orð, „mér þykir vænt um þig eins og þú ert“, án fyrirvara eða skilyrða. Þegar pabbi og mamma hafa áttað sig á því hvað kynhneigð þín merkir fyrir þig, þá sætta þau sig við hana og það sem meira er: Þau ganga skrefi lengra, læra að virða hana sem dýrmætan hluta af persónuleika þínum og viðurkenna smám saman að kynhneigðin á sennilega drjúgan þátt í því að gera þig að þeirri manneskju sem heillar þau og vekur með þeim hlýjar tilfinningar. Nú rennur upp tímabil innileika sem þið hafið sennilega öll saknað um nokkurn tíma, kannski árum saman. Þið skynjið gagnkvæma virðingu og traust. Spennan er horfin. Um þetta þarf ekki að hafa mörg orð – viðmótið nægir.

Slíkum foreldrum er að upplagi eiginlegt að taka tillit til annarra og víst hefur þá grunað margt um það hvaða manneskju þú hafðir að geyma. En nú verða þau sér enn meðvitaðri um þarfir þínar, hve þú hefur gengið í gegnum harðan skóla og hvaða erfiðleikar kunna að mæta þér. Sennilega fyllast þau ómældri aðdáun á þér, að þú skyldir þrauka tilfinningalega einangrun, spennu og baráttu við vanmetakennd í langan tíma á unglingsárum án þess að þora að segja þeim hug þinn – án þess að brotna. Ekki svo að skilja að allt gangi átakalaust fyrir sig í slíkum fjölskyldum. En þær nema ekki staðar, heldur fær fjölskyldan að þroskast saman.

Þegar hér er komið sögu standa slíkir foreldrar stundum í svipaðri stöðu gagnvart ættingjum og vinum og þú gagnvart þeim fyrir nokkru. Þeir finna að ef þeim á að líða vel verða þeir beinlínis að koma úr felum sem foreldrar lesbíu eða homma á hvaða vettvangi sem er. Eftir að hafa lært að virða tilfinningar þínar fyllast mamma þín og pabbi þörf til að krefjast virðingar ættingja, vina og vinnufélaga þér og sjálfum sér til handa. Og það er eins og við manninn mælt: Þau verða að ganga í gegnum svipað ferli gagnvart heiminum og afkvæmið gerði gagnvart þeim. Andstyggilegar eða kjánalegar athugasemdir um samkynhneigt fólk valda þeim sömu vanlíðan og hommanum og lesbíunni í fjölskyldunni og þar sem pabbi þinn og mamma hafa sennilega sterk bein í nefi átta þau sig á því að þeim er aðeins ein leið fær, að koma hreint til dyranna og bera höfuðið hátt. Þau stofna með öðrum orðum sitt „heimavarnarlið“.

 

Gjafir foreldranna

Sá sem hér ritar kynntist aldrei því fjölskyldulífi sem hér er kallað Óbærilegt ástand svo að lýsingin hér að framan styðst við frásagnir annarra, en hann hefur reynslu að hinum heimunum tveimur. Þegar ég sagði foreldrum mínum frá því að ég væri hommi átti móðir mín til jafnlyndi og skilning án skilyrða. Hún var frá fyrstu tíð tilbúin að læra og tileinka sér mína reynslu og vann að því síðan alla ævi að styrkja þann skilning, allt þar til hún lést árið 2006, þá á níræðisaldri. Faðir minn komst hins vegar í mikið uppnám, þjáðist lengi og átti erfitt, en allir fordómar hans voru settir fram undir formerkjum umhyggjunnar. Hann spurði mig meðal annars hvort ég vildi ekki ræða við góðan geðlækni svo ég gæti fengið bata. Smám saman jafnaði hann sig og skildi að hann hafði misst fótanna um tíma, enda var hann alla ævi í góðum tengslum við sinn innri mann, blíðlyndur og hjálpsamur maður. Þá sneri hann við blaðinu, studdi mig í stóru og smáu, og þegar hann skildi loksins um hvað líf mitt snerist uppskar ég meiri aðdáun frá honum en nokkru sinni fyrr. Hann bauð vini mína og kærasta velkomna á heimilið og sóttist eftir því að þekkja samkynhneigt fólk til að læra að skilja það og meta. En hvorugt þeirra eignaðist skilning sinn og þroska á einum degi, þetta var seinfarin leið, vægast sagt.

Þegar faðir minn andaðist, fimmtán árum eftir að hann fékk að vita að hann ætti homma að syni, hlaut ég að hugleiða og meta samskipti okkar í lífinu. Þar sem ég horfði á hann látinn rann loks upp fyrir mér að öll þessi ár hafði hann á sinn hátt verið að biðja mig um að fyrirgefa sér fyrstu viðbrögð sín. Hann valdi þá leið að biðjast fyrirgefningar með viðmóti sem alla tíð síðan hefur gefið mér ómælda trú á lífið á jörðinni. Og smám saman skildi ég hversu margfaldlega hann hafði borgað til baka fyrir ógætileg orð í augnabliks æsingi og geðshræringu.

Andspænis slíkri gjöf urðu gjafir minar til hans heldur smáar í sniðum.

 

Meðal heimilda

Mary V. Borhek. 1993 [1983]. Coming Out To Parents. Cleveland

Tom Sauerman. 1984. Coming Out To Your Parents. P-FLAG, Philadelphia. 

Að ógleymdum öllum þeim vinum mínum, ungum og gömlum, sem á liðnum árum hafa opnað mér huga sinn á trúnaðarstundum.

© Þorvaldur Kristinsson 2003, 2017.

 

Eftirmáli

Grein þessi birtist upphaflega í safnritinu Samkynhneigðir og fjölskyldulíf (Ritstj. Rannveig Traustadóttir og Þorvaldur Kristinsson. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2003). Þegar ég íhugaði það að birta hana aftur á nýjum vettvangi fannst mér fyrst þetta vera úrelt orð og óþörf. Svo margt stórkostlegt hefur gerst á síðustu árum hvað snertir lífsskilyrði og hamingju samkynhneigðra á Íslandi. Reynslan hefur þó kennt mér að mótlæti ungra homma og lesbía andspænis sínum nánustu er enn staðreynd hér á landi þótt það hlutskipti sé trúlega langtum mildara en það var þegar grein þessi var rituð. En sá hópur sem þjáist fer leynt með reynslu sína. Þau ungmenni, sem eiga auðvelt uppdráttar og njóta skilnings sinna nánustu, eru eðli málsins samkvæmt sá hópur sem er sýnilegastur í hinsegin veruleika á líðandi stund. Þau eru mörg og bera höfuðið hátt, miklu hærra en félagar þeirra gerðu um síðustu aldamót. Hinum má samt ekki gleyma, þeim sem þjást og lifa við andúð ástvina sinna, fara enn með veggjum og hika við að standa við tilfinningar sínar. Þeim er grein þessi tileinkuð.

Þorvaldur Kristinsson

Þorvaldur Kristinsson

Þorvaldur Kristinsson er bókmennta- og kynjafræðingur að mennt. Fræði sín nam hann við Háskóla Íslands en stundaði einnig nám við háskóla í Bandaríkjunum og Danmörku. Hann starfar nú sem rithöfundur og bókmenntaritstjóri. Þorvaldur var liðsmaður Samtakanna ´78 í aldarfjórðung og var formaður þess félags um langt árabil. Þá var nann einn af stofnendum Hinsegin daga í Reykjavík og forseti þeirra 2000–2012. Þorvaldur hefur lengi rannsakað sögu homma og lesbía á Íslandi og eftir hann liggja bæði blaðagreinar, fræðiritgerðir og bækur um það efni, m.a. hér og á vef Hinsegin daga.