Stöðvaðir á leiðinni heim fyrir jólin vegna hómófóbíu?

Stöðvaðir á leiðinni heim fyrir jólin vegna hómófóbíu?

Íslenskt par ætlaði að dvelja yfir hátíðarnar hjá fjölskyldu annars þeirra sem  búsett er í Bandaríkjunum en lenti í hremmingum á leið sinni þegar aðeins stutt innanlandsflug var eftir af ferðalaginu. Atburðarásin líktist helst átakamikilli jólamynd með alvarlegum undirtóni um ástfangið par að reyna að ná heim til fjölskyldunnar fyrir jólin þegar óvæntir atburðir settu strik í reikninginn og alvarleg þjóðfélagsmein blöstu við.

James McDaniel, sem nýverið hlaut íslenskan ríkisborgararétt, fjallaði um atburðarásina á einstakan og yfirvegaðan hátt í pistli sem við fengum leyfi til að þýða á íslensku og birta hér. Hafsteinn Himinljómi Regínuson er vel þekktur hérlendis sem dragdrottningin Ragna Rök og fengu vinir þeirra að fylgjast með þessari atburðarás yfir jólin í færslum á Facebook og var mörgum brugðið enda gera  margir sér ekki grein fyrir hversu gott við höfum það hér í samanburði við það sem tíðkast víða erlendis. James bætti síðan við nokkrum hugleiðingum í kjölfar þeirra viðbragða sem saga þeirra fékk, ekki síst eftir að lítillega var fjallað um hana í Fréttablaðinu / visir.is.

Þetta er saga sem ætti að snerta alla og við látum James McDaniel um að segja hana:

 

Um borð í lestinni
Um borð í lestinni

17:33 24. desember 2017.

Gleðileg jól!

Ég skrifa þetta um borð í Amtrak lest á leið okkar til Alabama til að halda upp á jólin. Haffi kærasti minn sefur við hlið mér. Ég vil taka fram að við höfðum ekki planað fyrirfram þessa sérstöku ferð til suðurríkjanna í næturlest heldur höfðu hlutirnir tekið óvænta stefnu eins og oft áður í lífi mínu þrátt fyrir ungan aldur og ég hef látið leiðast með straumnum af ró og yfirvegun eins og mér er eiginlegt. Hafið í huga að þar sem ég punkta þessar hugsanir niður í takt við mjúkar hreyfingar lestarvagnsins er ég langþreittur eftir flugferðir og ferðalög.

Mér er það mikill heiður að tilkynna með stolti að morguninn 28. október 2017, sama morgun og mikilvægar kosningar til Alþingis fóru fram, hlaut ég íslenskan ríkisborgararétt. Já, ég tilheyri nú hinum stolta og svolítið ringlaða hópi fólks sem hefur tvöfaldan ríkisborgararétt. Hversu mikill Bandaríkjamaður er ég. Hversu mikill Íslendingur? Svörin taka daglegum breytingum en mikið var ég ánægður að taka þátt í kosningum í fyrsta skipti í mínu nýja landi. Ég hafði líka klárað fyrstu önn í íslenskunámi í Háskóla Íslands og mikið er ég ánægður að losna við fallbeygingar og þá martröð sem íslensk málfræði er. Og ég sem hélt að kínverska væri erfið.

Aðfangadagur er að renna í garð en hvernig endaði þessi Alabama-íslenski starfsmaður í gróðurhúsi og kærasti hans, dragdrottning og barþjónn, í lest frá DC til Alabama? Í hreinskilni sagt er það vegna óheppilegrar blöndu af því sem best er hægt að lýsa sem hómófóbíu og þeirrar góðmennsku í anda jólanna sem við upplifðum í framhaldinu. Við Haffi komum til Bandaríkjanna með WOW flugfélaginu fyrir nokkrum dögum. Við komumst í gegnum vegabréfaeftirlitið vandræðalaust. Þetta var fyrsta heimsókn Haffa til Bandaríkjanna svo hann þurfti að fara í gegnum venjubundið ferli þar sem tekin eru fingraför í einhverskonar skanna og hann spurður einhverra spurninga. Við sóttum töskurnar okkar og eftir á að hyggja voru það mistök þegar við pökkuðum öllum okkar lyfjum, millistykkjum fyrir ameríska rafmagnið og fötunum okkar í töskurnar og skráðum þær inn í næsta flug sem átti að vera stutt innanlandsflug til Atlanta. Þar ætluðum við að hitta bróður minn og mömmu á flugvellinum. Eftir langa biðröð í gegnum öryggiseftirlitið fengum við okkur léttan kvöldverð. Haffi fann ekki reykingasvæðið, (ef það var þá þarna, enginn sem við spurðum gat svarað því), svo hann fór aftur út af flugvellinum til að reykja og síðan aftur í biðröðina í gegnum öryggiseftirlitið.

Í eftirfarandi facebookfærslu eru fyrstu viðbrögð mín við atburðunum sem áttu sér stað eftir að við vorum komnir um borð í flugvélina, sestir í sætin okkar en síðan reknir úr flugvélinni, (sem betur fer ekki með valdi):

10:57 22. desember 2017.

Jæja. Ég vildi bara setja hér inn stutta færslu um stöðu mála fyrir vini og fjölskyldu heima á Íslandi og í Bandaríkjunum. Við Haffi erum staddir í Baltimore á hóteli nálægt flugvellinum. Í gær fengum við okkur kvöldverð á flugvellinum og versluðum smávegis. Við fórum tímanlega um borð í flugvélina okkar til Atlanta og létum fara vel um okkur, ánægðir að vera í síðasta hluta ferðalagsins. Eldri bróðir minn og mamma biðu okkar á flugvellinum í Atlanta og ætluðu að taka á móti okkur. Ég var himinlifandi að vera kominn aftur til Bandaríkjanna og vera að fara að hitta fjölskylduna, sér í lagi þar sem ég hef hvorki hitt pabba minn né yngri bróðir í tvö ár. En þá, þar sem við sátum í sætunum okkar um borð í flugvélinni, komu þrír lögreglumenn um borð og sögðu okkur að við yrðum að yfirgefa flugvélina tafarlaust. Þeir neituðu fyrst að gefa okkur neina ástæðu. Síðan sögðu þeir að Haffi hefði hent einhverju að flugþjónunum. Við reyndum að spyrja nánar út í þetta því þeir hlutu að hafa ruglað okkur saman við einhverja aðra. Þeir sögðu að ef við færum ekki myndu þeir taka Haffa út í handjárnum. Það var ekki ljóst af hverju þeir beindu athygli sinni að honum en ekki mér. Ég veit það ekki enn. Þeir leiddu okkur úr flugvélinni. Haffi fór að gráta og hélt höndum um andlit sér. Þeir sögðu mér að ef hann róaði sig ekki niður myndu þeir handtaka hann. Eðlishvötin tók völdin og mér tókst að tala þá til og koma okkur út úr flugstöðinni án þess að hann yrði handtekinn. Þeir sögðu mér að ég gæti flogið með flugvélinni en siðferðislega eru engin rök fyrir því að yfirgefa maka sinn í framandi landi þremur dögum fyrir jól. Við vorum lengi að finna rútu á hótel með laust herbergi þar sem við höfðum hvorki aðgang að þráðlausu neti né interneti í síma.

Þannig atvikaðist það að við eyðum nóttinni hér á hóteli tengdir þráðlausu neti, gegn aukagjaldi. Þetta mun reddast einhvern veginn en ég skammast mín bara svo mikið fyrir þessa fyrstu upplifun kærasta míns af Bandaríkjunum. Þið þekkið söguna þar sem sagt er; „Fyrst réðust þeir á ____, en ég var ekki ___. Síðan réðust þeir á…“. Nú hef ég kynnst þessu af eigin raun. Þið hafið lesið fréttir um hversu brjálað ástandið hefur verið hér eftir að ný stjórn tók við völdum, en þetta virðist svo fjarlægt að þú heldur að þetta muni ekki snerta þig sjálfan. En svo, þegar það gerist… Ég veit ekki hvað ég get sagt. Við erum örmagna, en við erum í augnablikinu öruggir og munum láta ykkur vita þegar við vitum meir. Takk fyrir og hugsið til okkar.

Útsýnið úr lestinni
Útsýnið úr lestinni

Ég átti í stuttum samskiptum við Southwest flugfélagið í dag í gegnum Twitter. En þar sem þau gefa nú aðrar skýringar á brottvísuninni auk þess að þegar ég sagði þeim að mig grunaði að hómófóbía hefði ráðið ákvörðuninni nýttu þau ekki tækifærið til að neita því, þá ýtir þetta bara undir grunsemdir mínar um af hverju var farið svona með okkur. Það eina sem aðgreindi okkur frá öðrum farþegum var að við héldumst í hendur, við deildum kossi og Haffi hallaði sér upp að mér í sætinu. Allt er þetta algeng og eðlileg hegðun hjá pörum á Íslandi hvort sem þau eru af sama kyni eða gagnstæðu og nú finnst mér að ég hafi tekið því sem sjálfsögðum hlut.

Í samskiptum mínum við Southwest flugfélagið vildu þau ekki gefa mér upp hvaða hegðan það var sem þótti svona móðgandi, en þau notuðu orðalag sem gaf til kynna að hegðun Haffi hefði verið móðgandi eða sýnt virðingarleysi. Síðar breyttust skýringarnar þeirra og þau sögðu að við hefðum báðir hagað okkur með móðgandi hætti. Í okkar huga stemmir þetta engan veginn. Daginn eftir streymdu til okkar skilaboð frá vinum og fjölskyldu, víða að, full af kærleik og stuðningi. Þegar ástvinir lenda í hremmingum, sérstaklega hremmingum sem þú getur engin áhrif haft á, þá gerir þú allt sem í þínu valdi stendur til að leiðbeina og styðja við þá sem þurfa aðstoð. Og við erum mjög þakklátir öllum sem hafa boðið fram stuðning og aðstoð á ferð okkar hingað og metum hann mikils.

Þó það væri næstum uppselt tókst að fá tvö sæti í 18 tíma lestarferð frá DC til Birmingham. Þó ég geti ekki sagt að ég hafi óskað mér að sofa í sæti í lestarvagni deginum fyrir jól þá er ég aðallega ánægður með að við erum óhultir og hittum fjölskyldu mína væntanlega loksins eftir nokkra tíma.

Við könnuðum DC í dag, gengum að the Capitol Building, heimsóttum the National Botanic Gardens grasagarðinn, auk the Smithsonian’s Museum of the American Indian (þeirra orð, ekki okkar). Og við náðum einnig að hitta vin Haffa, nafna minn sem býr í DC. Hann tók okkur inn á heimili sitt og bauð okkur upp á mat og smá íslenskan Kúlusúkk lakkrís og Brennivín sem hann keypti nýverið í ferð til eyjarinnar okkar og okkur Haffa leið svo miklu betur á eftir. Hann var svo góður og gjafmildur að hann gaf okkur líka föt fyrir síðasta legginn af ferðalaginu og borgaði leigubílinn á lestarstöðina fyrir okkur.

Mér finnst að viðhorf mín til heimalands míns, Bandaríkjanna, hafi breyst. Við höfum öll fengið endalaust flóð af skelfilegum fréttum um núverandi ríkisstjórn, jafnvel frá því áður en hún tók völd, en yfirleitt og þá sérstaklega á Íslandi finnst okkur þetta vera eitthvað fjarlægt drama sem snertir okkur ekki. En núna finnst mér ég sjá hvernig aðgerðir Bandaríska forsetaembættisins sem einkennast af fasisma, rasisma, kvenfyrirlitningu, transfóbíu og hómófóbíu ýta undir sömu hegðun í öllu þjóðfélaginu. Og til að gæta fullrar sanngirni er alveg mögulegt að þetta hafi ekki verið dæmi um hómófóbíu, en það að fyrirtækið neitaði því ekki segir mér að það vantar eitthvað upp á upplýsingaflæðið til fulltrúa fyrirtækisins sem ég talaði við um hvað hafði komið fyrir okkur þarna í flugvélinni. Þetta er óvenjulegur tími ársins fyrir fólk um allan heim sem hneigist að mismunandi trúarbrögðum, eða er ekki trúað,fólk sem tilheyrir mismunandi kennisetningum og menningarhefðum. Ég hef ávallt reynt að láta aðra njóta vafans en ég vil líka og ber skilda til að fara með rétt mál og benda á ranglæti.

En ég get sagt ykkur að þar sem við sátum fyrir utan flugstöðina og reyndum að róa okkur niður eftir að hafa verið leiddir út af þremur lögreglumönnum, og til að gæta fyllstu sanngirni þá lögðu þeir aldrei á okkur hendur enda tókst okkur að halda aftur af okkur og haga okkur af ró af einskærri hræðslu, (hræðslu við líkamsárás um borð í flugvélinni, líkt og við höfum öll séð í fréttum, ekki síst gagnvart erlendum ferðamönnum), og þar sem við vorum þvingaðir frá borði, þó ekki með valdbeitingu, þá voru lögreglumennirnir bara að framfylgja grimmúðlegum óskum starfsmanna Southwest. Ég get sagt ykkur að ég mun aldrei gleyma óttanum, niðurlægingunni og sorginni í rödd Haffa þar sem hann grét í fangi mér fyrir utan flugstöðina í köldu röku lofti Maryland fylkis. Hann grátbað mig um að koma okkur aftur til Íslands, að koma okkur heim. Ég mun aldrei gleyma örvæntingunni sem skein úr augum hans og þeim vanmætti sem ég upplifði í þessum aðstæðum.

Ég sækist hvorki eftir athygli né spennu, annars byggi ég ekki í afskektu gróðurhúsi á landsbyggðinni á Íslandi. En það eru áföll í lífinu sem rekur fólk eins og mig til að fjarlægjast hringiðu mannlífsins og þetta nýjasta áfall á bara eftir að styrkja þá hegðun hjá mér.

Mig langar innilega að þakka starfsfólki Marriott Baltimore Airport hótelsins sem tóku á móti okkur um miðja nótt og útveguðu okkur mjög þægilegt og hljóðlátt herbergi með afslætti á einum annríkasta tíma ársins, tíma sem er fullur streitu jafnt fyrir ferðamenn sem starfsfólk. Það eru þessi litlu tilvik þegar maður finnur fyrir góðvild og örlæti ókunnugra sem hjálpa manni að ná áttum og að jafna sig eftir svona áfall. Og ég vil líka þakka innilega öllum vinum og fjölskyldumeðlimum víðsvegar um hnöttinn, en sérstaklega þeim í Bandaríkjunum og á Íslandi, sem hafa sent mér skilaboð og staðfest upplifun okkar um að þetta hafi ekki verið eðlilegt eða réttmætt. Og einnig fyrir allan þann stuðning og kærleika sem við fengum.

Við höfum nú náð að róa okkur og okkur hlakkar aðallega til að komast heim til foreldra minna í Birmingham og njóta jólanna með fjölskyldunni áður en við getum einu sinni áttað okkur fyllilega á því hvað gerðist og hvað við gerum næst í málinu. Þó það sé mikil lífsreynsla að upplifa sig í einhverskonar jólabíómynd frá óháðum framleiðanda þá held ég að ég sé tilbúinn fyrir sögulok hér. Og til allra annarra sem eru að ferðast um þessa jólahátíð vil ég óska ykkur öruggrar og tíðindalítillar ferðar, munið að rólegt ferðalag er gott jafnvel þó það verði töf á.

Ég óska ykkur gleði og hamingju á komandi ári,
James McDaniel.

(Þetta er opið bréf sem ég skrifaði snemma í morgun og lýsir tilfinningum mínum og viðbrögðum eins og þau eru núna. Þetta er mín saga, hugsanir og tilfinningar undanfarinna daga og endurspegla aðeins mínar skoðanir.)

 

Komnir á leiðarenda
Komnir á leiðarenda

Hver er James McDaniel?

James fór betur yfir bakgrunn sinn í færslu 30. desember 2017:

Þegar við tókum þá ákvörðun að tala við fjölmiðla um það sem við lentum í ákvað ég jafnframt að ég myndi ekki svara athugasemdum með beinum hætti. Hér ætti þó að vera tiltölulega öruggt umhverfi fyrir skoðanir tvíkynhneigðs manns eins og mín. Og það er það sem þetta er, mínar skoðanir. Tilgangur okkar með því að tala við fjölmiðla var aldrei að sækjast eftir athygli eða vorkunn, heldur að vara aðra við í þeirri von að aðrir lendi ekki í þessu. Eða í það minnsta að ef þú ferð til Bandaríkjanna hafðu varann á þér og vertu meðvitaður um það í hvaða aðstæður þú ert að fara.

Ég ólst upp í Alabama. Ég hitti enga opinberlega samkynhneigða manneskju fyrr en ég var orðinn átján ára og í raun skildi ég hugtakið samkynhneigð fyrr en þá. Mér fannst bara ruglingslegt að bæði konur og karlar höfðuðu til mín kynferðislega enda hafði ég fengið skýr skilaboð frá bæði kirkju og samfélaginu í kringum mig að ef slíkar hugsanir leituðu á mig væru þær syndsamlegar og af hinu illa. Ég þurfti að hafa mikið fyrir því og það tók mig langan tíma bara að komast á það stig að skilja innra með mér að þessar hugsanir væru bæði náttúrulegar og eðlilegar.

Ég hef aðeins ferðast til átján landa en þetta var fyrsta skiptið sem ég hef verið beðinn um að yfirgefa flugvél. Af þeim hundruðum fluga sem ég hef flogið var þetta fyrsta og eina skiptið sem ég ferðaðist heimleiðis í opinberu samkynhneigðu sambandi með maka af sama kyni. Þetta var fyrsta skiptið sem ég þorði að fara ekki leynt með kynhneigð mína á ferðalagi heimleiðis. Og nú er ég að átta mig á því að það voru mistök að halda að við værum öruggir.

Ég er ekki viss um að við Íslendingar áttum okkur raunverulega á því hversu mikið ofbeldi er í Bandaríkjunum. Jafnvel nú þarf ég að minna sjálfan mig á að hérlendis er algengt að börn dökk á hörund séu drepin án nokkurrar annarrar ástæðu en að þau voru þar sem þau voru. Ég meina aðeins á þessu ári 2017 hafa 976 manneskjur verið skotnar til bana bara af lögreglunni. Þar á meðal hér í heimabæ mínum Birmingham fyrir tveim dögum meðan við Haffi sváfum í aðeins örfárra mílna fjarlægð: https://www.washingtonpost.com/graphics/national/police-shootings-2017/

Þegar ég var í menntaskóla í Alabama var einn nemandi stunginn til bana á ganginum fyrir utan kennslustofuna mína. Seinn í menntaskóla lést fyrsta eiginkona mín af krabbameini, það tók fjölskyldu hennar tíu ár að greiða upp reikningana fyrir sjúkrahúsvistina og meðferðina þrátt fyrir að þau væru með sjúkratryggingu. Þannig að það er ekki svo að ég sé ekki meðvitaður um þá grimmd sem er samofin Bandarísku þjóðfélagi. Það er auðvelt að tala um að milljónir manna lifi venjulegu lífi og hafi það gott, en svo vaknar þú upp einn daginn við það að eitthvað slæmt kemur fyrir þig. Augljóslega færðu nýja sýn á hlutina.

En til viðbótar hef ég einnig búið og starfað í Kína og á Íslandi. Í fyrstu ferð minni til Kína var ég aðeins sautján ára og varð vitni að því þegar lögreglan barði stúdent. Ég var á ferð með kínverskum vinum mínum sem reyndu að byrgja mér sýn og koma mér í burt tafarlaust. Seinna sögðu þau mér að ef lögreglan hefði orðið þess vör að útlendingur hefði orðið vitni að þessu, þá hefði það komið sér afar illa fyrir stúdentinn til lengri tíma litið. Ástæðan fyrir barsmíðunum? Það er engar lögmætar ástæður fyrir lögreglu að berja fólk. Stúdentinn hafði kropið í almenningsgarði og var að betla pening fyrir skólagjöldum. Aðalatriðið er að ég kann að greina misbeitingu valds þegar ég verð vitni að því. Þegar þú hefur orðið vitni að því einu sinni er ekki erfitt að greina það aftur. Fólk með óheft vald á það til að misnota það. Fólk á Íslandi hefur í raun aldrei haft óheft vald, við myndum ekki láta bjóða okkur það. Og ég vona að þannig verði það áfram.

Frá síðustu kosningum í Bandaríkjunum höfum við séð stjórnvöld opna fyrir mismunun víðsvegar. Þegar þú hefur mann í æðstu stöðu valdakerfisins, forseta Bandaríkjanna, sem segir opinberlega að það sé í lagi að vera fullur kvenfyrirlitningar, rasisti, með hómófóbíu, með transfóbíu, að styðja fasista þá er hann ekki að gera þetta í tómarúmi heldur eflir hann þessa hegðan hjá fólki. Og þegar þetta fólk er í valdastöðum, gefur hann þeim leyfi til að misnota vald sitt.

Ég vil leggja áherslu á að Bandaríkjamenn eru ekki allir ofbeldisfullir og að við höfum fengið svo mikinn stuðning og kærleika frá vinum og fjölskyldu síðan við komum hingað að það er ótrúlegt. Í DC gaf Bandarískur vinur Haffa okkur jafnvel sokka og skyrtu til skiptanna fyrir 22 tíma lestarferðina til Alabama, þar sem farangurinn varð viðskila við okkur á flugvellinum. En í hvert skipti sem ég á samtal um þessi mál hér heyri ég óttann við versnandi ástand í samfélaginu hér. Ástandið er ekki að batna, það er að versna. Og það er nokkuð sem Íslendingar á leið hingað ættu að hafa í huga. Það eru tvö ár síðan ég var hér síðast og ég verð áþreifanlega var við minna öryggi í samfélaginu, það er lokaðra og þvingaðra. En höfum í huga að fjöldi Bandaríkjamanna hafa helgað sig baráttunni gegn þessari þróun og við ættum að veita þeim stuðning.

Aðeins um nýja landið mitt. Ég hef upplifað frelsi á almannafæri á Íslandi með öðrum hætti en nokkurstaðar annarsstaðar þar sem ég hef búið. Þegar ég leiddi annan karlmann úti á götu í Reykjavík gat ég ekki leynt ótta mínum. Ég svipaðist um, leit yfir öxlina til að vera viss um að enginn væri að elta okkur. En Íslendingnum sem ég var með fannst þetta næstum bara fyndið, sagði mér að hafa engar áhyggjur, að við værum öruggir hérna. Það tók mig rúmt ár að yfirstíga þennan ótta, að líða vel með að halda í hönd maka míns eða að kyssa hvorn annan á götuhorni. Það er ekki hættulegt að gera þetta í íslensku samfélagi. En er til fólk með hómófóbíu á Íslandi? Að sjálfsögðu. Munu þau ráðast á þig í svefni og drepa þig? Ekki enn, nei.

Ég hef séð að sumir velta því upp að hugsanlega hafi þetta atvik ekki byggst á hómófóbíu og það kann að vera, sjáum til hvað flugfélagið segir. Við ættum að heyra hvað það hefur fram að færa en það er ekki mitt að tala fyrir þeirra hönd, ég tala aðeins fyrir mig sjálfan. Ég hef haft samband við félagið en það er langur vegur frá þeim köldu merkingarlausu orðum stórfyrirtækisins sem berast frá þjónustuborðinu, þó þau reyni að hafa tónin vinalegan, og því sem fólkið með raunverulegu völdin gerðu okkur þennan tiltekna dag. Þjónustufulltrúinn áttaði sig ekki einu sinni á því að við hefðum ekki komið til Birmingham með flugvélinni þeirra. Þannig að augljóslega mun það taka lengri tíma fyrir þau að komast að niðurstöðu í þessu stórfyrirtæki en í millitíðinni riðlaðist ferðalag okkar og skaðinn er skeður. En til að reyna að gæta fyllstu sanngirni, þó ég hafi enga ástæðu til að sýna sanngirni eða óhlutdrægni í máli sem liggur svo nærri hjarta mínu og manninum sem ég unni, þá vilja háttsettir innan Southwest flugfélagsins láta það líta út sem svo að flugfélagið sé framsækið, en þó ekki svo framsækið að það fæli ekki frá eldri og íhaldssamari viðskiptavini, en samt nógu framsækið til að laða að yngri og framsæknari viðskiptavini. Og þið getið lesið ykkur til um hvernig félagið hefur staðið sig hér: . www.ranker.com

Það er mikilvægt að þið veltið fyrir ykkur hver var fórnarlambið í þessum aðstæðum. Hver upplifði sársauka og hver er þjáist eftir áfallið og ringulreiðina sem á eftir fylgdi. Neyddu þeir okkur til að yfirgefa staðinn vegna þess að einhverjum öðrum leið illa? Hverjum leið illa og af hverju? Og hver á rétt á skýringum á framferði þeirra?

Það er hlutlægur sannleikur í hvaða aðstæðum sem er en í aðstæðum þar sem allt gerist mjög hratt verður þú að treysta á frásögn þeirra sem voru á staðnum og upplifðu þetta. Þannig hefur þetta ávallt verið og ekki síst í samfélagi LGBTQAI+ fólks þar sem við höfum aldrei verið í þeirri valdastöðu að sögur okkar um eigin upplifun, ofsóknir í okkar garð eða þau áföll sem við verðum fyrir séu tekin trúanleg ein og sér. Og núna þurfum við sérstaklega að treysta á góðvild þess gagnkynhneigða fólks sem ekki er trans og skipa meirihluta samfélagsins. Þeirra sem ráða yfir fjölmiðlunum, flestum fyrirtækjum, flestum stjórnvöldum og svo framvegis.

Það er mikilvægt að þú veltir fyrir þér hvern þú tekur trúanlega. Viltu trúa stórfyrirtækinu sem hefur engu að tapa, hefur valdið og fjármagnið? Viltu trúa vopnuðum lögreglumönnunum sem starfa hjá ríkinu og voru kallaðir til af stórfyrirtækinu? Eða ertu tilbúinn að láta slag standa og taka trúanlega sögu samkynhneigðra manna um það hvernig þeir urðu fyrir áfalli og hvernig þeir upplifa eigið líf og lífsreynslu? Þú verður að velja þarna á milli.

Þannig að þegar ég sé íslenska samlanda mína draga upplifun okkar Haffa í efa þá særir það mig og fáfræðin veldur mér vonbrigðum. Ef þið bara vissuð hversu gott þið hafið það.

Hér er listi sem inniheldur nöfn flestra þeirra sem hafa verið myrt af hómófóbískum morðingjum í Bandaríkjunum á mínum lífstíma. Þetta fólk hefur ekki lengur rödd til að verja sig sjálft. Fórnarlömbin kölluðu þetta ekki yfir sig sjálf og þau koma úr öllum stigum þjóðfélagsins. Ég er tilbúinn til að tala við hvern sem er um þessi málefni eftir að viðkomandi hefur gefið sér tíma til að kynna sér hvað samkynhneigðir í Bandaríkjunum hafa að óttast og eftir að viðkomandi hefur lesið nöfn fórnarlambanna.

Og ef þú hefur enn þörf fyrir að ræða þetta enn frekar eftir þann lestur þá mun ég ekki gera það ég spjalli á netinu heldur myndi ég reyna að hitta þig yfir kaffibolla þegar ég er kominn heilu höldnu til Reykjavíkur aftur.

 


Páll Guðjónsson þýddi og skrifaði inngangsorð.

Nýlegar greinar